Enski boltinn

Guardiola: City á ekki sömu sögu og Barca, Bayern eða United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, viðurkennir að sitt félag eigi ekki sömu sögu og erkifjendurnir í Manchester United og það gæti tekið áratug að komast á sama stall United.

City er búið að vinna ensku úrvalsdeildina í tvígang, enska bikarinn einu sinni og deildabikarinn tvisvar sinnum á síðustu sex árum en Guardiola telur að liðið þurfi að spila í Meistaradeildinni reglulega næsta áratuginn til að komast á sama stall og stærstu félög Evrópu.

Sjá einnig:Sjáðu stórvandræðalegt viðtal við Guardiola: Þú ert blaðamaðurinn

City er búið að vera í Meistaradeildinni á hverju ári síðan 2010 og komst í undanúrslitin á síðustu leiktíð undir stjórn Manuel Pellegrini. Þar féll enska liðið úr leik gegn Real Madrid sem síðar stóð uppi sem sigurvegari.

„Það er ekki sama sagan sem fylgir okkar treyju og hjá Barcelona, Juventus, Bayern München eða Manchester United. Við höfum ekki unnið jafnmarga titla,“ er haft eftir Guardiola í Daily Mirror.

„Þetta snýst um að vera í Meistaradeildinni á hverju ári næsta áratuginn. Það er mikilvægara fyrir þetta félag en að vinna einn titil. Trúið mér, það skiptir meira máli.“

„Við verðum að sannfæra fólk um að þetta er frábært félag og stuðningsmennirnir líka. Það verða allir að trúa að þetta félag sé gott og leikmennirnir séu góðir,“ segir Pep Guardiola.

Eftir tap gegn Liverpool komst City-liðið aftur á sigurbraut á mánudaginn þegar það lagði Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley, 2-1. Lærisveinar Guardiola eru í þriðja sæti með 42 stig, sjö stigum á eftir Chelsea sem mætir Tottenham í stórleik í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×