Íslenski boltinn

Freistingin er mikil fyrir íslenska knattspyrnumenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daníel Ólason er prófessor í sálfræði við HÍ.
Daníel Ólason er prófessor í sálfræði við HÍ. Vísir/E.Stefán
Reglulega berast fregnir af því að niðurstöðum íþróttaviðburða sé hagrætt í því skyni að hafa af því fjárhagslegan ávinning í gegnum veðmálastarfsemi. Engin íþrótt er óhult en vandamálið er einna stærst í knattspyrnu og er íslensk knattspyrna þar ekki undanskilin.

Niðurstöður íslenskrar rannsóknar, þar sem þátttaka knattspyrnumanna á Íslandi í peningaspilum og getraunaleikjum var könnuð, voru kynntar á ráðstefnu í Háskóla Íslands í gær. Rúmlega 700 leikmenn svöruðu könnuninni og um sjö prósent þeirra viðurkenndu að hafa veðjað á úrslit eigin leikja.

Sjá einnig:Grunur kviknað um hagræðingu í þessum þremur leikjum

Daníel Ólason, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands og einn aðstandenda rannsóknarinnar, segir að tæpleg 30 prósent karlkyns leikmanna sem svöruðu könnuninni stundi peningaspil vikulega eða oftar. „Í þeim hópi er það um fimmtungur sem viðurkennir að veðja á eigin leiki,“ segir Daníel við Fréttablaðið.

Konur eru mun ólíklegri til að stunda peningaspil. Aðeins 2,3 prósent kvenna gera það vikulega. Og langflestir þeirra sem stunda peningaspil gera það á erlendum vefsíðum. Raunar hafði helmingur allra karlkyns leikmanna veðjað á úrslit knattspyrnuleikja á erlendum vefsíðum.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að 9,6 prósent leikmanna sem svöruðu sýna einkenni spilavanda. Samsvarandi hópur í þjóðarúrtaki er nokkru minni eða 2,5 prósent.

Leikmenn mega ekki veðja

„Rannsóknin segir ekkert um hvort úrslitum leikja á Íslandi hafi verið hagrætt,“ bendir Daníel á. „En freistingin er til staðar. Það eru miklir peningar undir og freistingin til að hafa áhrif á niðurstöðuna er til staðar.“

Hann segir að þó svo að heilt yfir sé ekki stór hópur leikmanna að veðja á úrslit eigin leikja sýni rannsóknin að hópurinn sé það stór að bregðast þurfi við. Samkvæmt reglum KSÍ mega samningsbundnir leikmenn á Íslandi ekki veðja á úrslit neinna leikja hér á landi – hvorki sinna eigin leikja eða annarra liða.

Þorvaldur Ingimundarson er heilindafulltrúi KSÍ og segir að niðurstöðurnar komi sambandinu ekki á óvart.

„Þetta eru vissulega háar tölur sem við sjáum í niður­stöðum rannsóknarinnar. Það staðfestir grun sem við höfum haft – að það er töluvert spilað og freistingin mikil fyrir íslenska knattspyrnumenn,“ segir Þorvaldur.

Aðeins tímaspursmál

Rannsóknin er ein sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Daníel segir að í fyrra hafi verið framkvæmd rannsókn erlendis þar sem margar tegundir íþrótta voru skoðaðar. Þar kom í ljós að fjögur prósent leikmanna höfðu veðjað á eigin leiki.

Niðurstaðan sýnir að það er mikil hætta á að veðmálahneyksli brjótist út á Íslandi, líkt og gerst hefur í nágrannalöndum Íslands.

„Við verðum að horfast í augu við að það er líklegt að grunur vakni um óheilbrigða starfsemi af þessu tagi á Íslandi eins og annars staðar,“ segir Þorvaldur enn fremur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×