Innlent

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir að aka lyftara próflaus um götur Hafnar í Hornafirði

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn hafði áður verið sviptur ökurétti ævilangt vegna fyrri brota. Maðurinn og lyftarinn á myndinni tengjast fréttinni ekki.
Maðurinn hafði áður verið sviptur ökurétti ævilangt vegna fyrri brota. Maðurinn og lyftarinn á myndinni tengjast fréttinni ekki. VÍSIR/GETTY
Tæplega fertugur karlmaður var dæmdur í fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Austurlands, undir lok síðasta árs, fyrir að aka lyftara um götur Hafnar í Hornafirði án þess að vera með ökuréttindi.

Maðurinn ók lyftaranum frá mjölbræðslu Skinneyjar-Þinganess að sorplosunarstöð bæjarins við Sæbraut. Á leiðinni til baka stöðvaði lögreglan akstur mannsins.

Maðurinn mætti ekki fyrir dóminn við þingfestingu og boðaði ekki forföll. Fjarvist hans var metin til jafns við það að hann viðurkenndi brot sitt.

Frá árinu 2004 hefur maðurinn í sjö skipti hlotið dóm og fimm sinnum gengist undir sátt hjá lögreglustjóra fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Í mars 2015 var hann sviptur ökuréttindum ævilangt. Með tilliti til þess var refsing hans ákveðin fjögurra mánaða fangelsisvist og þótti ekki tilefni til að skilorðsbinda hana.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Allir með vinnu í Hornafirði

Gífurlegur skortur er á vinnuafli í Hornafirði en í september voru aðeins sex manns þar á atvinnuleysisskrá. Atvinnuleysi telst því vera 0,5 prósent í sveitarfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×