Innlent

Svifrykið lengi að fara á nýársnótt

Benedikt Bóas skrifar
Mikið logn var fyrstu klukkustundir áramótanna í Reykjavík.
Mikið logn var fyrstu klukkustundir áramótanna í Reykjavík. vísir/anton
Styrkur svifryks í Reykjavík fyrstu klukkustundina á árinu 2017 var 1.451 míkrógrömm (µg) á rúmmetra í mælistöðinni við Grensásveg en á sama tíma í fyrra var styrkurinn 363 míkrógrömm á rúmmetra. Þetta er næstmesta svifryksmengun frá áramótunum 2010.

Þegar nýja árið var nýgengið í garð mældist meðalstyrkur svifryks í loftgæðafarstöð við leikskólann Grænuborg við Eiríksgötu 904 míkrógrömm á rúmmetra fyrstu klukkustund nýs árs, í loftgæðafarstöð HER við Rofabæ var hann 1.159 og í stöð UST í Fjölskyldu og húsdýragarðinum 816. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Meðaltalsstyrkurinn á Grensás á nýársdag var 160 míkrógrömm á rúmmetra og fór styrkur svifryks því yfir sólahrings-heilsuverndarmörkin í fyrsta sinn á árinu 2017. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Svifryk var einnig yfir sólarhrings­mörkum í hinum þremur loftgæðamælistöðvunum í Reykjavík. Hæsta hálftímagildið mældist kl. 01.30 í stöðinni við Grensás, 2.418 míkró­grömm á rúmmetra.

Hár styrkur svifryks í ár orsakast af því að nánast var logn fyrstu klukkustundir ársins.

Styrkurinn fór níu sinnum yfir sólarhrings-heilsuverndarmörk á árinu 2016.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×