Enski boltinn

Leicester keypti Ndidi og missir hann ekki í Afríkukeppnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wilfred Ndidi.
Wilfred Ndidi. Vísir/Getty
Englandsmeistarar Leicester City hafa gengið frá kaupunum á nígeríska miðjumanninum Wilfred Ndidi.

Leicester borgar belgíska félaginu Genk fimmtán milljónir punda fyrir leikmanninn eða 2,1 milljarð íslenskra króna. Guardian segir frá.

Leicester City missir þrjá leikmenn í Afríkukeppnina í janúar en þarf ekki að hafa áhyggjur af því að missa Wilfred Ndidi.Landslið Nígeríu komst nefnilega ekki í gegnum undankeppnina og er því ekki með í úrslitakeppninni í Gabon.

Wilfred Ndidi er aðeins tvítugur en hann getur spilað margar stöður á vellinum. Hann hefur spilað sem miðvörður og sem hægri bakvörður en hans óskastaða er inn á miðjunni.

Ndidi kom til Genk frá Nathaniel Boys of Lagos og lék sinn fyrsta leik með félaginu í janúar 2015.

Ndidi hitti fyrir landa sinn hjá Leicester en Ahmed Musa spilar einnig með liðinu.

Ndidi hefur gengið frá samningi við Leicester en nýi samningurinn gildir til ársins 2022. Hann mun spila í treyju númer 25.

Leicester hefur áður keypt lítt þekkta leikmenn með góðum árangri og það verður því fróðlegt að sjá hvernig Wilfred Ndidi tekst að fóta sig hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×