Varaökumaður Mercedes liðsins og keppnisökumaður Manor liðsins, Pascal Wehrlein hefur gengið til liðs við Sauber liðið. Ökumannsmarkaðurinn er að skýrast eftir brotthvarf heimsmeistarans Nico Rosberg.
Ætla má að samningur Wehrlain við Sauber sé undanfari þess að staðfest verði að Valtteri Bottas fari til Mercedes. Wehrlein var einn af líklegustu ökumönnunum til að taka sætið sem Rosberg skyldi eftir autt.
Mercedes liðið horfir á þetta sem næsta skref í þróun Wehrlein sem ökumanns. Hann er framtíðarökumaður liðsins en honum er ekki treyst fyrir sæti hjá liðinu alveg strax. Hann þarf að sækja sér meiri reynslu.
Manor virðist eina liðið sem er óvíst um hvaða ökumenn það mun setja í bíla sína á komandi tímabili. Líklega verður Esteban Gutierrez þar, en hann fékk ekki annað tímabil hjá nýliðunum í Haas liðinu.
Spurningin er hvort Felipe Nasr sem hefur tapað sæti sínu hjá Sauber til Wehrlein taki sæti við hlið Gutierrez hjá Manor. Það getur þó allt gerst í Formúlu 1 og það er fullkomlega óljóst hvort annar þeirra eða báðir verða hjá Manor.

