Enski boltinn

Ævintýralegur munur á United með og án Carrick sem tapar ekki með hann í liðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michael Carrick er að spila vel 35 ára gamall og United má ekki án hans vera.
Michael Carrick er að spila vel 35 ára gamall og United má ekki án hans vera. vísir/getty
Þrátt fyrir alla þá tugi og hundruði milljóna punda sem Manchester United er búið að eyða í leikmenn á undanförnum árum virðist það vera 16 milljóna punda maðurinn Michael Carrick (sem kom til liðsins 2006) sem er ekki bara mikilvægasti leikmaður United heldur sá lang mikilvægasti. Allavega segir tölfræðin það.

Það er hreint ævintýralegur munur á gengi Manchester á tímabilinu með og án Michael Carrick en þessi 35 ára gamli miðjumaður, sem er á sinni elleftu leiktíð með liðinu, er ekki enn búinn að tapa leik. Þá er markaskorun allt önnur hjá United með hann í liðinu og það fær á sig færri mörk.

Carrick hlaut ekki náð fyrir augum José Mourinho til að byrja með á leiktíðinni og hún byrjaði svo sem vel með sigri í Góðgerðarskildinum og þremur sigrum í röð í byrjun leiktíðar í ensku úrvalsdeildinni. En svo fór að halla undan fæti. Nú er staðan ansi einföld: Ef Michael Carrick spilar þá eru yfirgnæfandi líkur á að Manchester United vinni leikinn.

Carrick er búinn að spila fimmtán leiki á tímabilinu í fjórum keppnum (Góðgerðarskildinum, úrvalsdeildinni, Evrópudeildinni og deildabikarnum) án þess að tapa. Með Carrick í liðinu er United búið að vinna þrettán af þessum fimmtán leikjum og gera tvö jafntefli. Liðið er búið að skora 35 mörk í þessum fimmtán leikjum og fá á sig tíu.

Þrátt fyrir ágæta byrjun í deildinni án Carrick gengur ekkert án hans núna. Í hinum 15 leikjunum sem United er búið að spila á tímabilinu án miðjumannsins hefur það unnið sex sigra, gert fjögur jafntefli og tapað fimm leikjum. Það skoraði aðeins 16 mörk í þessum fimmtán leikjum en fékk á sig fimmtán eða eitt mark í leik.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, virðist vera búinn að finna besta tríóið á miðjuna í þeim Ander Herrera, Paul Pogba og Carrick þó sá síðastnefndi geti nú ekki spilað alla leiki. Hann á 441 leik að baki fyrir United í öllum keppnum og hefur skorað í þeim 23 mörk og lagt upp önnur 35.

Leikir Man. Utd á tímabilinu með Michael Carrick: 15

Sigrar: 13

Jafntefli: 2

Töp: 0

Mörk skoruð: 35

Mörk fengin á sig: 10

Markatala: +25

Leikir Man. Utd á tímabilinu án Michael Carrick: 15

Sigrar: 6

Jafntefli: 4

Töp: 5

Mörk skoruð: 16

Mörk fengin á sig: 15

Markatala: +1


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×