Viðskipti innlent

Hægt að stíga stórt skref í rafbílavæðingu

Svavar Hávarðsson skrifar
Flestir landsmenn munu hafa aðgang að hleðslustöðvum að verkefninu loknu.
Flestir landsmenn munu hafa aðgang að hleðslustöðvum að verkefninu loknu.
Tillögur ráðgjafarnefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla hafa verið samþykktar af iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Því verður á næstu tveimur árum hægt að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands, segir í tilkynningu.

Er þar bæði um hraðhleðslustöðvar og hefðbundnar hleðslustöðvar að ræða, samtals 42 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar stöðvar. Í dag eru þrettán hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla á landinu. Verkefnið nær því til 105 nýrra hleðslustöðva sem byggðar verða upp á tímabilinu.

Verkefnið er hluti af sóknar­áætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21). Miðar verkefnið að því að gert verði átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu til að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta.

Orkusjóði bárust 33 umsóknir, samtals að upphæð 887 milljónir króna. Til ráðstöfunar voru 67 milljónir á ári í þrjú ár (2016-2018), eða samtals 201 milljón króna.

Af styrkþegunum 16 eru samtals sex sveitarfélög. Auk þeirra er þar að finna orkufyrirtæki, söluaðila eldsneytis og fleiri. Við tillögugerðina var m.a. litið til þess að best nýting fjármuna fælist í því að innviðastyrkirnir færu til stöndugra aðila þar sem á þessu stigi eru takmarkaðar markaðsforsendur fyrir uppsetningu hleðslustöðva á landsvísu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×