Héraðsdómur Reykjaness hefur úrskurðað tvo skipverja Polar Nanoq í tvegggja vikna gæsluvarðhald. Eru þeir grunaðir um aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur.
Lögreglan fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir tveimur skipverjum sem handteknir voru um hádegisbilið gær og hefur ákveðið að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.
Alls voru þrír handteknir í tengslum við málið. Tveir þeirra voru fluttir í Héraðsdóm Reykjaness í hádeginu í dag og er búið að færa báða mennina fyrir dómara. Mennirnir tveir voru handteknir í hádeginu í gær og frá þeim tíma má lögregla halda þeim í sólarhring án gæsluvarðhaldsúrskurðar. Sá frestur rann út í hádeginu í dag.
Ekki liggur fyrir hvort eða hvenær farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þriðja skipverjanum. Var hann handtekinn klukkan milli sjö og átta í gærkvöldi og má því halda honum þangað til í kvöld án gæsluvarðhaldsúrskurðar.
Í samtali við Vísi fyrr í dag sagði, Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, sem fer með rannsókn á hvarfi Birnu, að lögreglan teldi nauðsynlegt að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim mönnum sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í dag.
„Rannsóknin er á því stigi að við teljum nauðsynlegt að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim sem handteknir fyrir um sólarhring. Svo við höfum lengri tíma til að halda áfram að vinna með þær upplýsingar sem við erum með,“ sagði Grímur í samtali við Vísi.
Yfirlýsing lögreglunnar í tengslum við úrskurði um gæsluvarðhald
„Tveir karlar voru í dag í héraðsdómi Reykjaness úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna í tengslum við rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hvarfi Birnu Brjánsdóttur.
Lögreglan fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir báðum mönnunum og hefur ákveðið að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar. Mennirnir voru handteknir um hádegisbil í gær um borð í grænlenska fiskiskipinu Polar Nanoq líkt og fram hefur komið. Þriðji maðurinn var svo handtekinn um borð í skipinu í gærkvöld, en ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum hefur ekki verið tekin.“

