Viðskipti innlent

Dóra Sif aftur til ADVEL lögmanna

atli ísleifsson skrifar
Dóra Sif hefur verið meðeigandi að ADVEL lögmönnum frá árinu 2011.
Dóra Sif hefur verið meðeigandi að ADVEL lögmönnum frá árinu 2011. advel
Dóra Sif Tynes héraðsdómslögmaður hefur snúið aftur til starfa hjá ADVEL lögmönnum en hún gegndi starfi forstöðumanns lagaskrifstofu EFTA í Brussel frá 2013 til 2016.

Í tilkynningu frá stofunni kemur fram að Dóra Sif hafi sérhæft sig í Evrópu- og EES rétti og veitt bæði stjórnvöldum og fyrirtækjum ráðgjöf á því sviði. Hún skipaði þriðja sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir síðustu þingkosningar.

„Hún hefur verulega reynslu af málflutningi bæði fyrir EFTA dómstólnum og dómstólum ESB og víðtæka reynslu á sviði samkeppnis- og fjarskiptaréttar, ríkisaðstoðarreglna og fjármála- og verðbréfamarkaðsréttar.

Dóra Sif lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands 1997 og meistaraprófi í Evrópurétti og samanburðarlögfræði frá European University Institute í Flórens á Ítalíu árið 2000. Hún hefur ritað margar fræðigreinar á sviði Evrópu- og EES réttar og flutt fjölda fyrirlestra og erinda um EES samninginn einkum í Bretlandi á árinu 2016. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Háskólanum í Reykjavík og hjá European Institute of Public Administration í Luxemborg.  Þá hefur hún einnig stundað rannsóknir á sviði ríkisaðstoðarreglna og er meðhöfundur að handbók um ríkisaðstoð við fjármálafyrirtæki sem gefin verður út í Bretlandi á vormánuðum.

Dóra Sif hefur verið meðeigandi að ADVEL lögmönnum frá árinu 2011,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×