Einn úr áhöfn Nanoq Polar var með rauða Kia Rio-bílinn, sem lögreglan lagði hald á í dag, á leigu aðfaranótt laugardags þegar Birna hvarf.
Lögreglan óskaði í dag eftir aðstoð danska herskipsins Tríton vegna rannsóknarinnar. Tríton var fyrir á ferð við Ísland þegar beiðni um aðstoð barst.
Upplýsingafulltrúi danska hersins, Erik Boettger, staðfesti í samtali við Vísi að beiðni um aðstoð hefði borist frá íslensku lögreglunni síðdegis í dag. Hann gat þó ekki tjáð sig frekar um málið, sagði það á ábyrgð íslensku lögreglunnar og að hún yrði að svara fyrir það.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur heimildir fyrir því að þyrla Landhelgisgæslunnar hefði fyrr í kvöld lagt af stað með sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra innanborðs út á haf í átt að skipi. Grímur vildi ekki staðfesta það í samtali við RÚV.
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi hjá Landhelgisgæslunni, hefur ekki viljað tjá sig neitt um verkefni Landhelgisgæslunnar í kvöld. Þyrla gæslunnar TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli upp úr klukkan átta í kvöld. Fjórir stigu úr þyrlunni við lendingu, allt starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Vísir hefur engar upplýsingar um hvaða verkefni þyrlan var að sinna.

Lögreglan óskaði í morgun eftir og fékk lista yfir skipverja á grænlenska togaranum vegna rannsóknarinnar á hvarfi Birnu. Samkvæmt heimildum Vísis var einn úr höfn grænlenska togarans með rauða Kia Rio-bifreið á leigu nóttina sem Birna hvarf.
Sjá einnig: Lögregla hefur lagt hald á rauða Kia Rio bifreið
Rauður Kia Rio-bíll sást í eftirlitsmyndavélum við Hafnarfjarðarhöfn á milli klukkan sex og hálfsjö á laugardagsmorgun. Skömmu áður, eða klukkan 5:50, kemur sími Birnu inn á símamastur við Flatahraun í Hafnarfirði en svo er slökkt á símanum.

Fyrr í dag var greint frá því að lögregla rannsaki myndskeið úr eftirlitsmyndavél við áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Myndskeiðið er frá því á laugardagsmorgun klukkan 5:53 en á því sést rauður bíll, afar líkur þeim sem lögreglan hefur lýst eftir og birtir myndir af úr eftirlitsmyndavélum á Laugavegi.
Á myndskeiðinu sést hvernig bílnum er skyndilega ekið í burtu þegar ljós kviknar á eftirlitsmyndavél.
Grímur lagði áherslu á það í samtali við Vísi að lögreglan viti ekki hvort að bíllinn sem hún lagði hald á í dag sé sami bíll og var á Laugavegi nóttina sem Birna hvarf. Þá sagði hann í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 á sjöunda tímanum að enginn væri grunaður í málinu, enginn yfirheyrður eða lýst eftir neinum. Síðan þá hefur Grímur neitað að tjá sig frekar um málið í samtali við Vísi.