Innlent

Lögreglan skoðar tengsl grænlenskra sjómanna við hvarf Birnu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Grænlenski togarinn Polar Nanoq.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq. víðir már hermannsson
Lögreglan óskaði í morgun eftir og fékk lista yfir skipverja á grænlenska skipinu Polar Nanoq vegna rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Þetta hefur Vísir eftir heimildum en togarinn lét úr Hafnarfjarðarhöfn á laugardagskvöld. Skór sem lögregla segir að Birna hafi verið í nóttina sem hún hvarf fundust við höfnina í gærkvöldi, skammt frá þar sem togarinn var í höfn.

Fyrr í dag lagði lögregla hald á rauða Kia Rio-bifreið í Hlíðasmára í Kópavogi. Starfsmaður fyrirtækis í götunni hafði tekið bílinn á leigu í gær en var ekki með hann til umráða um helgina.

Rauður Kia Rio-bíll sást við Hafnarfjarðarhöfn

Samkvæmt heimildum Vísis voru Grænlendingar með bílinn á leigu á þeim tíma sem Birna hvarf en rauður Kia Rio-bíll sást í eftirlitsmyndavélum við Hafnarfjarðarhöfn á milli klukkan sex og hálfsjö á laugardagsmorgun. Skömmu áður, eða klukkan 5:50, kemur sími Birnu inn á símamastur við Flatahraun í Hafnarfirði en svo er slökkt á símanum.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, vill ekki staðfesta að þeir sem hafi verið með rauða Kio Rio-bílinn á leigu sem lögregla lagði hald á í dag séu áhafnarmeðlimir Polar Nanoq. Hann sagði að lögreglu hefðu borist töluvert af upplýsingum sem væri verið að vinna úr og að rannsóknin væri á viðkvæmu stigi.

Bíl ekið flóttalega í burtu

Fyrr í dag var greint frá því að lögregla rannsaki myndskeið úr eftirlitsmyndavél við áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Myndskeiðið er frá því á laugardagsmorgun klukkan 5:53 en á því sést rauður bíll, afar líkur þeim sem lögreglan hefur lýst eftir og birtir myndir af úr eftirlitsmyndavélum á Laugavegi.

Á myndskeiðinu sést hvernig bílnum er skyndilega ekið í burtu þegar ljós kviknar á eftirlitsmyndavél. 

Grímur lagði áherslu á það í samtali við Vísi að lögreglan viti ekki hvort að bíllinn sem hún lagði hald á í dag sé sami bíll og var á Laugavegi nóttina sem Birna hvarf. Þá sagði hann í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 að enginn væri grunaður í málinu, enginn yfirheyrður eða lýst eftir neinum.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 18:40.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×