Ekki hefur þó verið boðaður út leitarhópur enda ekki nægar vísbendingar fyrir hendi til þess að afmarka sérstakt leitarsvæði að sögn lögreglu.

Lögregla lýsti eftir Birnu í gær en enn hefur ekkert spurst til hennar. Málið er í algjörum forgangi hjá lögreglu og unnið er úr öllum vísbendingum sem hingað til hafa ekki verið margar.
„Við rannsóknina, sem hefur staðið yfir sleitulaust í allan dag, hefur lögregla m.a. skoðað upptökur úr eftirlitsmyndavélum og símagögn, en það hefur ekki skilað árangri enn sem komið er,“ sagði í tilkynningu frá lögreglu fyrr í kvöld.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þrátt fyrir að sími Birnu hefði verið í grennd við gömlu slökkvistöðina í Hafnarfirði þegar hann varð rafmagnslaus, væri ekki hægt að draga þá ályktun að hún væri skammt undan.
Bíllinn fannst í miðbænum
Jóhann staðfesti jafnframt að bifreið, sem Birna hefði ekið niður í bæ á föstudagskvöld, hefði fundist í miðbæ Reykjavíkur. „Hún fór á bíl niður í bæ og skildi hann þar eftir,“ sagði Jóhann.
Verið er að skoða ábendingar héðan og þaðan af landinu en lögregla er þó enn engu nær.
„Við erum bara að skoða þær ábendingar sem við fáum og erum engu nær ennþá,“ sagði Jóhann Karl í samtali við fréttastofu um hálf tólf í kvöld.
Allir þeir sem geta veitt upplýsingar um ferðir Birnu frá því kl. 5 í gærmorgun eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 - 1000.