Innlent

Daginn hefur lengt um klukkustund í borginni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Daginn hefur nú lengt um rúma klukkustund í Reykjavík frá vetrarsólstöðum en nyrst á landinu nemur lengingin um klukkustund og fjörutíu mínútum. Skammdegið víkur þannig mishratt eftir því hvar við búum á landinu. 

Landsmenn taka eftir því að daginn er tekið að lengja, bæði er bjartara yfir þegar sól er hæst á lofti og birtutíminn varir lengur. En breytingin birtist okkur misjafnlega eftir því hvar við erum stödd á landinu. Til dæmis munar talsverðu hvenær sól er hæst á lofti, þannig var hádegið klukkan 13.37 í Reykjavík í dag, klukkan 13.41 á Ísafirði en klukkan á 13.06 á Egilsstöðum. Hádegið birtist Austfirðingum þannig 35 mínútum fyrr en Vestfirðingum.

Og meðan sólin í Reykjavík fór hæst í 4,6 gráður yfir sjóndeildarhring fór hún hæst í 2,8 gráður á norðanverðum Vestfjörðum og upp í 5,3 gráður í syðstu byggð landsins, Vestmannaeyjum. Þetta þýðir að lengd sólargangsins í dag var misjöfn, þannig hélst sólin á lofti í Reykjavík í 5 klukkustundir og 16 mínútur en á Akureyri í 4 klukkustundir og 32 mínútur; 44 mínútum skemur en í Reykjavík. Upplýsingarnar sóttum við í gegnum vefsíðuna timeanddate.com.

Einni klukkustund munaði á lengd sólargangs á Akureyri og í Vestmannaeyjum í dag.Grafík/Tótla I. Sæmundsdóttir.
Lenging sólargangs frá vetrarsólstöðum, 21. desember, er einnig ærið misjöfn, meðan daginn hafði lengt um eina klukkustund og átta mínútur í Reykjavík í dag hafði hann lengt um eina klukkustund og 37 mínútur á Ísafirði. 

Stundum er talað um að daginn lengi bara um hænufet fyrst eftir vetrarsólstöður, svo lítil virðist hún vera. En upp úr þessu er daginn tekið að lengja hraðar, um fimm til sex mínútur á dag, og eftir viku varir birtutíminn í borginni um 35 mínútum lengur en í dag. Þá getum við farið að huga að því að kveðja skammdegið.

Lenging sólargangs frá vetrarsólstöðum er meiri á norðanverðu landinu.Grafík/Tótla I. Sæmundsdóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×