Innlent

Grunaður um að hafa ráðist á sam­býlis­konu sína er hún var með þriggja mánaða gamalt barn þeirra í fanginu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að maður skuli sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili sínu og sambýliskonu sinnar í fjórar vikur vegna gruns um að hann hafi ráðist á hana þann 3. janúar síðastliðinn.

Maðurinn er grunaður um að hafa meinað konunni útgöngu úr íbúð þeirra þegar hún ætlaði að fara en hún var með 3 mánaða gamla dóttur þeirra í fanginu. Að því er fram kemur í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er maðurinn grunaður um að hafa tekið um mitti konunnar og kastað henni og barninu í rúmið.

„Þá hafi hann öskrað og kastað til hlutum í íbúðinni og m.a. brotið sjónvarpið. Hann hafi einnig lagst yfir hana og barnið þar sem hún lá með það í rúminu. Um hálftíma síðar hafi hún náð að komast út úr íbúðinni og hlaupa í bakarí sem sé þar skammt frá og kalla eftir aðstoð lögreglu,“ að því er segir í greinargerðinni.

Héraðsdómur hafði einnig dæmt að maðurinn mætti ekki koma nálægt heimili foreldra konunnar en Hæstiréttur féllst ekki á það. Hann sætir hins vegar nálgunarbanni og brottvísun af heimili.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að í mars í fyrra hafi lögreglan verið kölluð til þar sem maðurinn hafði þá hrint konu sinni en hún var þá barnshafandi. Þá er maðurinn með dóm á bakinu vegna sérstaklega hættulegrar líkamsárásar á föður sinn en hann var dæmdur í 8 mánaða fangelsi sem skilorðsbundið var til þriggja ára.

Dóm Hæstaréttar má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×