Innlent

Ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir vegna myglu í Laugarnesskóla

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Aðstoðarskólastjórinn farinn í leyfi vegna veikinda sem rakin eru til myglunnar.
Aðstoðarskólastjórinn farinn í leyfi vegna veikinda sem rakin eru til myglunnar. vísir/stefán
Ráðast þarf í umfangsmiklar framkvæmdir í Laugarnesskóla í Reykjavík vegna rakaskemmda og myglu sem þar fundust skömmu fyrir jól. Aðstoðarskólastjórinn er kominn í leyfi vegna langvarandi veikinda sem rakin eru til lélegra loftgæða á skrifstofu hans.

Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla, segir mygluna staðbundna við starfsmannasvæðin og að gengið hafi verið úr skugga um að nemendasvæðin séu í lagi.

„Það mældist raki á fimm svæðum á stjórnendaskrifstofum okkar og núna eru tvær verkfræðistofur að vinna að aðgerðaráætlun. Ég hef upplýst foreldra um þetta og hef þær væntingar til minna yfirmanna að gengið verði hratt og fljótt í þetta, því hagsmunir nemenda og starfsfólks eru í húfi,“ segir Sigríður í samtali við Vísi.

Aðspurð segir Sigríður að upp hafi komist um rakaskemmdirnar eftir að bera fór á veikindum meðal starfsmanna. Hún hafi þá fengið Reykjavíkurborg til þess að taka út húsnæðið og að niðurstöður úr loft- og snertisýnum hafi leitt í ljós að loftgæði voru slæm vegna langvarandi leka með gluggum og múr. Næstu skref verði að ráðast í úrbætur, og segir hún að málið verði í algjörum forgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×