Innlent

Sautján ára handtekinn fyrir líkamsárás á Stórhöfða

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Einn var fluttur á slysadeild eftir líkamsárásina.
Einn var fluttur á slysadeild eftir líkamsárásina. Vísir/Hari
Sautján ára piltur var handtekinn á Stórhöfða fyrir líkamsárás rétt fyrir miðnætti í gær. Í tilkynningu frá lögreglu segir að gamalt ágreiningsmál hafi tekið sig upp á á milli tveggja manna og þeim lent saman. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á slysadeild en hann fékk að minnsta kosti tvö spörk í sig.

Þá var annar maður handtekinn um klukkan hálf eitt í nótt eftir að hafa reynt að slá dyraverði á skemmtistað í Grafarvogi og hrækt á gesti. Maðurinn var mjög ósamvinnuþýður þegar lögreglu bar að garði og var hann að endingu fluttur í fangaklefa og verður yfirheyrður síðar í dag.  

Klukkan rúmlega tvö barst lögreglu tilkynning um mann í mjög annarlegu ástandi í austurbænum. Þegar lögreglumenn tóku manninn tali kom í ljós að maðurinn var skelfingu lostinn og sagðist vera á flótta undan mönnum sem væru að elta sig. Hann var með miklar ranghugmyndir og þorði hvergi að vera sökum ofsókna. Lögreglan bauð honum því gistingu og ætlar hann að leita læknis vegna sálarástands síns í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×