Banaslys varð á veginum í gær. Átján ára stúlka lést í slysinu, norðan við afleggjarann að Bláa lóninu, og einn er alvarlega slasaður. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú tildrög slyssins.
„Þetta er ömurlegt. Samfélagið er í sárum út af þessu slysi. Þetta er hrikalegt,“ segir Kristín. Hún segir að slysið muni þrýsta á að brugðist verði við ástandi vegarins.

Hún segir bæjarstjórn hafa lagt áherslu á það við Vegagerðina að laga bæri gatnamótin við afleggjarann að Bláa lóninu. „Síðan voru gerðar umbætur á þeim vegi, reyndar ekki í nokkru samráði við okkur, við fréttum bara af þessu þegar þeir voru byrjaðir,“ segir hún. Jafnframt hafi verið bent á að vegurinn sé fjölfarinn og þröngur. Umferðin hafi aukist mikið með auknum fjölda ferðamanna.
„Nú er ég ekki að ákveða fyrirfram með hvaða hætti þetta slys átti sér stað en vegurinn er varasamur,“ segir Kristín enn fremur. Þá segist hún geta fullyrt að það þurfi að gera breytingar á veginum ef vel eigi að vera.

„Það sem við höfum horft til, og kallar þá á gríðarlega mikið fjármagn og nýjar hugsanir, er að aðskilja akstursstefnur. Það er besta leiðin til þess að koma í veg fyrir slys,“ segir hann enn fremur.
Það verði gert með því að breyta vegunum í svokallaða 2+1 vegi. Þar sem tvær akreinar liggja í aðra áttina og ein í hina. Akstursstefnurnar eru síðan aðskildar með vegriði. Hann segir stefnt að því að gera slíkt á milli Hveragerðis og Selfoss.
Á síðasta ári fóru að meðaltali 3.158 bílar um Grindavíkurveg á hverjum degi. Til samanburðar fóru 7.416 bílar að meðaltali á milli Hveragerðis og Selfoss.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu