Innlent

Coca-Cola á Íslandi ekki skaðabótaskylt gagnvart manni sem kveðst hafa gleypt glerbrot við að drekka úr kókflösku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur. vísir/gva
Coca-Cola á Íslandi er ekki skaðabótaskylt gagnvart manni sem höfðaði mál gegn fyrirtækinu í kjölfar þess að hann gleypti glerbrot við það að drekka úr kókflösku.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur en maðurinn höfðaði mál gegn fyrirtækinu vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir en maðurinn hélt því fram að kókflaskan, sem hann keypti sér í apríl 2013 í sjoppunni á BSÍ, hefði verið gölluð þar sem í henni hefðu leynst glerbrot. Coca-Cola á Íslandi hafnaði kröfu mannsins og hélt því fram að útilokað væri að glerbrot hefði komist í flöskuna í framleiðsluferlinu.

Maðurinn hafði tekið sopa úr flöskunni og við það gleypt glerbrot en að mati héraðsdóms er það hvorki sannað að glerbrot hafi verið í flöskunni þegar hann keypti hana né að hann hafi í raun gleypt glerbrotin.

Andlegt og líkamlegt tjón

Málið var byggt á því að maðurinn taldi sig hafa slasast við það að gleypa glerbrotin enda hlaut hann skurð í gómi vegna þeirra auk þess sem hann sagði að það hefði valdið honum kvölum þar sem þau bárust í kviðarholið. Þá hafði slysið skert lífsgæði hans þar sem hann treysti sér ekki til að borða sama mat og áður.

Þá kvaðst hann einnig hafa orðið fyrir andlegu tjóni í kjölfar þess að hann gleypti glerbrotin sem hafi meðal annars lýst sér í þunglyndi og kvíða. Þar sem maðurinn er nígerískur ríkisborgari hafi hann orðið fyrir meira fjárhagstjóni en ella þar sem hann hafi ekki verið sjúkratryggður hérlendis. Að auki hafi hann verið frá vinnu vegna slyssins.

Fór á klósettið og kom til baka í slæmu ástandi

Tvö vitni, bandarískir mormónar, gáfu símaskýrslu fyrir dómi en þeir voru með manninum á BSÍ umræddan dag og sáu í hvernig ástandi hann var eftir að hann taldi sig hafa gleypt glerbrotið. Þá var einnig með þeim frönsk kona, ferðamaður hér á landi, en hún gaf ekki skýrslu fyrir dómi.

 

Framburður beggja mormónanna var á svipaðan veg. Þeir höfðu séð manninn drekka af einni kókflöskunni sem hann hafði keypt í sjoppunni á BSÍ en skömmu síðar stóð hann upp og fór á salernið. Þegar maðurinn kom svo til baka hafi hann hóstað, blóð hafi komið upp úr honum, hann hafi verið skjálfandi og kúgast.

„B var sérstaklega spurður út í það fyrir dómi hvort þessi viðbrögð stefnanda hefðu komið fram eftir að hann tók sopa af gosdrykknum við borðið sem þeir sátu við og sagði vitnið þá að svo hefði ekki verið heldur hafi hann séð þessi viðbrögð eftir að stefnandi kom út af salerninu. Vitnið C bar á sama veg hvað þetta varðar. Af vitnisburði þessara tveggja vitna er því ekki unnt að slá því föstu hvort það ástand sem þeir lýsa að stefnandi hafi verið í, megi rekja til þess að hann drakk af gosflöskunni áður en hann fór inn á salernið eða einhverju því sem gerðist á meðan hann var þar inni,“ segir í dómi héraðsdóms.

Reyndi að kúga fé út úr Coca-Cola í Frakklandi

Þá er líka vikið að frönsku ferðakonunni sem var með þeim en fyrir dómnum lá skriflegur vitnisburður hennar þar sem hún kvaðst hafa séð manninn slasast við það innbyrða glerbrot úr kókflösku. Þá hefði hún tekið myndband af manninum á BSÍ. Að mati dómsins varpa þessi gögn ekki frekara ljósi á því sem maðurinn hélt fram um ástand sitt.

Að auki dró það úr trúverðugleika frásagnar mannsins að konan reyndi að kúga fé út úr átöppunaraðila Coca-Cola í Frakklandi gegn því að hún myndi ekki dreifa myndbandinu til dæmis til fjölmiðla eða samkeppnisaðila Coca-Cola.

Um læknisfræðileg gögn málsins sem maðurinn lagði fram og skýrslu sálfræðings til sönnunar á því tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir segir í dómi héraðsdóms:

„Þá er í læknisfræðilegum gögnum málsins ekki að finna óyggjandi vísbendingar um það hvort stefnandi hafi drukkið og/eða kyngt glerbrotum. Svo sem rakið er í atvikalýsingu dómsins þá gekkst stefnandi undir ítarlega skoðun á bráðamóttöku Landspítalans sama dag og umdeilt atvik átti sér stað. Þær rannsóknir leiddu ekki í ljós önnur einkenni eða áverka á stefnanda en um 2 cm skurð í gómi. Síðari læknisskoðanir leiða heldur ekki í ljós frekari einkenni sem renna stoðum undir staðhæfingar hans um að hann hafi gleypt glerbrot. Þá hafa staðhæfingar um alvarleg andleg veikindi, sem rekja megi til umdeilds atviks, ekki verið studd haldbærum gögnum en fyrirliggjandi yfirlýsing sálfræðings þar að lútandi er óljós auk þess sem sálfræðingurinn kom ekki fyrir dóm til að staðfesta og skýra efni hennar.“

Dómurinn taldi því að manninum hefði ekki tekist að sanna að glerbrot hafi verið í flöskunni þegar hann keypti hana né að hann hefði í raun gleypt glerbrot. Var Coca-Cola á Íslandi því sýknað af kröfu mannsins um að fyrirtækið væri skaðabótaskylt.

Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×