Innlent

Vara nemendur HÍ við að þeim gæti verið byrlað ólyfjan

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Nemendur Háskóla Íslands fengu í dag tilkynningu þar sem brýnt var fyrir þeim að skilja ekki eftir mat eða drykk á glámbekk.
Nemendur Háskóla Íslands fengu í dag tilkynningu þar sem brýnt var fyrir þeim að skilja ekki eftir mat eða drykk á glámbekk. Vísir/Eyþór
Nemendur við Háskóla Íslands fengu í dag tölvupóst frá Jóni Atla Benediktssyni rektor skólans þar sem öryggisnefnd skólans brýndi fyrir nemendum að skilja ekki við eigur sínar eftirlitslausar á háskólasvæðinu.

Í tilkynningunni segir einnig að varasamt sé að skilja mat og drykkjarföng eftir ef fólk þarf að bregða sér frá. Ástæðan sé sú að ekki sé unnt að útiloka að óprúttnir einstaklingar laumi ólyfjan í neysluvörur á háskólasvæðinu.



Tilkynningin sem send var á nemendur HÍ.Skjáskot
Sigríður Björnsdóttir, starfsmaður öryggisnefndar Háskóla Íslands, segir að engin dæmi séu þó fyrir slíku við skólann.

„Þetta er bara svona almenn tilkynning frá öryggisnefndinni. Það er í rauninni ekkert á bakvið hana, engin dæmi eða eitthvað slíkt. Heldur viljum við bara að fólk sé meðvitað um það að skilja ekki hlutina sína eftir. Við vitum alveg að það hefur færst í vöxt í samfélaginu að það er verið að lauma einhverju í drykki hjá fólki. Við höfum bara heyrt af því og lesið um það í blöðunum,“ segir Sigríður í samtali við Vísi.

„Við viljum líka benda á að háskólinn er líka opið svæði og hingað koma margir. Það er ekki hægt að hafa eftirlit með því. Þannig að við erum bara í heilsufars- og öryggisskyni að benda á þessar hættur sem geta verið hérna. Okkur finnst fólk ekki vera alveg nógu mikið á varðbergi, nemendumfinnst þetta svo öruggt umhverfi. Það er nú eiginlega bara það sem á baki liggur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×