Innlent

Lögregla óskar eftir vitnum að tveimur innbrotum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Lögregla biður fólk um að vera á varðbergi.
Lögregla biður fólk um að vera á varðbergi. vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að tveimur innbrotum sem áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Brotist var inn í einbýlishús í Árbæ og Grafarvogi en bæði húsin voru mannlaus þegar þjófarnir létu til skarar skríða.

Innbrotin tvö svipa mjög til nokkurra annarra innbrota sem lögregla hefur haft til rannsóknar frá því seint á síðasta ári, segir í tilkynningu. Er fólk því hvatt til þess að láta vita um grunsamlegar mannaferðir og beðið um að skrifa niður bílnúmer eða lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað.

„Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan. Lögreglan vill enn fremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum þegar það fer að heiman og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa um innbrot eða koma í veg fyrir þau,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

 Þá er sérstaklega minnt á að útiljós séu kveikt þar sem þau eru til staðar því það einfaldi nágrönnum að sjá umferð/mannaferðir við húsin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×