Innlent

Færeyingasöfnuninni lýkur á sunnudag: Markmiðið að safna tæpum sjö milljónum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Addy Steinars, Gísli Gíslason, Orri Vigfússon og Rakel Sigurgeirsdóttir fara fyrir söfnuninni. Utanríkisráðherra Færeyja segist glaður taka á móti stuðningi frá íslenskum almenningi, en hefur þó afþakkað aðstoð frá íslenskum yfirvöldum.
Addy Steinars, Gísli Gíslason, Orri Vigfússon og Rakel Sigurgeirsdóttir fara fyrir söfnuninni. Utanríkisráðherra Færeyja segist glaður taka á móti stuðningi frá íslenskum almenningi, en hefur þó afþakkað aðstoð frá íslenskum yfirvöldum.
Íslendingar hafa nú safnað 4,4 milljónum króna til handa Færeyingum sem urðu fyrir miklu eignatjóni í óveðrinu sem gekk yfir eyjarnar á milli jóla og nýárs. Söfnuninni lýkur á miðnætti á sunnudag og verður féð í kjölfarið afhent færeyskum björgunarsveitum, en markmiðið er að safna tæpum sjö milljónum króna.

Eignatjón einstaklinga verður bætt í gegnum tryggingafélögin en færeyskar björgunarsveitir voru ekki tryggðar fyrir því tjóni sem þær urðu fyrir, en stór hluti af þeirra björgunarbúnaði eyðilagðist.

Í tilkynningu frá aðstandendum söfnunarinnar er áætlað heildarverðmæti búnaðarins 412 þúsund danskar krónur, eða rúmlega 6,7 milljónir króna, og er markmiðið að safna upp í þá fjárhæð.

Söfnunarféð verður afhent Landssambandi björgunarfélaganna í Færeyjum um næstu mánaðamót. Aðstandendur söfnunarinnar hafa unnið að skipulagningu og umgjörð afhendingarinnar í samráði við ræðismann Færeyja hér á landi.

Núna stendur söfnunarupphæðin í 4.416.109,- en söfnunin verður opin fram til miðnættis sunnudaginn 15. janúar. Þeir sem vilja leggja henni lið er bent á reikninginn 1161 26 006000. Kennitalan er 170961-7819.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×