Innlent

Ungir Fram­sóknar­menn gagn­rýna kynja­hlut­fallið í nýrri ríkis­stjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjórar konur og sjö karlar eru í nýrri ríkisstjórn.
Fjórar konur og sjö karlar eru í nýrri ríkisstjórn. vísir/anton brink
Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna hefur sent frá sér ályktun vegna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem tók við völdum í dag. Í ályktuninni eru kynjahlutfallið í ríkisstjórninni gagnrýnt en af ellefu ráðherrum hennar eru sjö konur.

Segja ungir Framsóknarmenn að þeim þyki „umhugsunarvert að í nýrri ríkisstjórn sé hlutfall kvenráðherra aðeins 36% og þar með undir því viðmiði stjórnarráðsins að 40% þeirra sem sitja í nefndum og stjórnum á vegum ríkisins séu konur.“

Þá er á það minnt í ályktuninni að nú sé í fyrsta skipti sem konur séu helmingur þingmanna. Því hljóti þessa ráðherraskipana að skjóta skökku við bæði við „þá þróun sem hefur átt sér stað í samfélaginu og þær jafnréttisáherslur sem ný ríkisstjórn hefur boðað.“

Ályktunina má sjá í heild sinni hér að neðan:

Um leið og stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna þakkar fráfarandi stjórn kærlega fyrir vel unnin störf óskar hún nýrri stjórn velfarnaðar í nýjum verkefnum. Ljóst er að ný ríkisstjórn tekur við afar góðu búi af  fráfarandi ríkisstjórn sem starfaði undir forystu Framsóknarflokksins.

Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna finnst þó umhugsunarvert að í nýrri ríkisstjórn sé hlutfall kvenráðherra aðeins 36% og þar með undir því viðmiði stjórnarráðsins að 40% þeirra sem sitja í nefndum og stjórnum á vegum ríkisins séu konur.

Þegar í fyrsta skipti lýðveldisins konur eru um helmingur þingmanna hlýtur þessi ráðherraskipan að skjóta skökku við þá þróun sem hefur átt sér stað í samfélaginu og þær jafnréttisáherslur sem ný ríkisstjórn hefur boðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×