Innlent

Móðir fórnarlambs skotárásarmannsins Dylans Roofs segist fyrirgefa honum

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Felicia Sanders, móðir Tywanza Sanders, eins fórnarlamba Roofs, tók til máls við uppkvaðningu dómsins og sagðist fyrirgefa Roof fyrir glæp sinn.
Felicia Sanders, móðir Tywanza Sanders, eins fórnarlamba Roofs, tók til máls við uppkvaðningu dómsins og sagðist fyrirgefa Roof fyrir glæp sinn. Vísir/Epa
Felicia Sanders, móðir Tywanza Sanders, eins fórnarlamba Dylans Roofs sem skaut níu manns til bana 17. júní 2015, tók til máls við uppkvaðningu dóms í málinu og sagðist fyrirgefa Roof fyrir glæp sinn. ABC greinir frá.

„Þú tókst frá mér ástina mína og síðan 17. Júní hef ég þekkt þig og kynnst þér. Ég þekki þig vegna þess að þú hefur verið í huga mér alla daga síðan. Ég get ekki heyrt í blöðru springa, ég get ekki horft á flugelda,“ segir Sanders og bætir við að hún geti ekki lokað augunum þegar hún biður til Guðs þar sem hún verði að hafa þau opin til þess að hún geti haft augun á fólkinu í kringum sig.

Fleiri aðstandendur tóku einnig til máls en Roof lét sem ekkert væri og horfði ekki á þau og neitaði hann að tjá sig. Fjölskylda Roof sagðist aldrei munu skilja hvers vegna hann framdi þennan hatursglæp en sögðu jafnframt að þau elskuðu hann.

Það tók aðeins þrjá klukkutíma fyrir kviðdóminn að dæma Dylan Roof til dauða fyrir hrottaleg morð og hatursglæpi en Roof skaut níu svarta Bandaríkjamenn til bana í kirkju í Charleston í Suður-Karólínu fylki 17. Júní 2015. Roof myrti fólkið, sem var samankomið til að lesa úr Biblíunni, í nafni hvítrar þjóðernishyggju. Dómurinn var uppkveðinn síðdegis í gær og var hann formlega kynntur í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×