Innlent

Landsmenn minntust Birnu Brjánsdóttur

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í miðbæ Reykjavíkur seinnipartinn í dag vegna göngu sem skipulögð var til minningar um Birnu Brjánsdóttur.

Fólk safnaðist saman við Hlemm um fjögurleytið og gekk síðan niður Laugaveginn og að Arnarhóli. Lögregla áætlar að fólksfjöldinn hafi verið á bilinu 6 til 7 þúsund manns þegar mest lét.

Margir gestanna staðnæmdust við Laugaveg 31 og lögðu þar blóm en á þeim stað sást síðast til Birnu á lífi. 

Þegar á Arnarhól var komið var gerð mínútu þögn. Gestir og gangandi kveiktu á kertum og karlakórinn Esja söng. 

Segja má að Arnarhóll hafi logað í ljósaskiptunum en kertin skiptu hundruðum.

Rætt var við vegfarendur sem staddir voru á Arnarhóli í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég vildi sýna samstöðu. Mér finnst þjóðin hafa staðið saman á þessum erfiðu og sorglegu tímum og það er gott að geta komið og sýnt það í verki,“ sagði einn þeirra

Fyrstu kertin tendruð.vísir/ernir
Gangan var einkaframtak þriggja kvenna, þeirra Ninnu Körlu Katrínardóttur, Guðrúnar Brands og Bryndísar Óskar Oddgeirssdóttur.

Ninna Karla sagði í samtali við Vísi að þær stöllur hafi ekki þekkt Birnu persónulega en þær hafi þrátt fyrir það fundið fyrir hvata til þess að minnast hennar á einhvern hátt.

„Þetta er mál sem snerti við allri þjóðinni. Allir fylgdust með leitinni og allir fundu til þegar hún fannst. Við vildum með þessu votta henni virðingu og sýna fjölskyldu hennar og vinum samúð.“

Þúsundir manna vottuðu Birnu virðingu sína síðdegis í dag.vísir/ernir
Karlakórinn Esja söng.vísir/ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×