Viðskipti innlent

Fyrrverandi forstjóri biðst afsökunar á ummælum um hæstaréttardómara á Facebook

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Magnús Jónsson, fyrrverandi forstjóri Atorku.
Magnús Jónsson, fyrrverandi forstjóri Atorku. Vísir/Hörður
Magnús Jónsson, fyrrverandi forstjóri Atorku Group, hefur dregið til baka ummæli sem hann lét falla um hæstaréttardómarana Benedikt Bogason og Karl Axelsson. Ummælin féllu á Facebook í desember og ákváðu dómararnir að stefna honum vegna þeirra.

Benedikt Bogason hæstaréttardómari.Vísir/Valli
„Þann 13. desember 2016, birti ég færslu hér á Facebook þar sem ég dróttaði að æru hæstaréttardómaranna Benedikts Bogasonar og Karls Axelssonar. Ég fjarlægði færsluna stuttu síðar enda áttu þau atvik sem ég lýsti í færslunni sér aldrei stað og því voru umræddar ásakanir með öllu tilhæfulausar,“ skrifaði Magnús á Facebook-síðu sína í síðustu viku.

Ummæli Magnúsar tengdust dómi sem féll í einkamáli í Hæstarétti á síðasta ári en Magnús var ekki sáttur við niðurstöðuna.

Málið snerist um fjárskipti Magnúsar og fyrrverandi eiginkonu hans sem tekist var á um fyrir dómstólum. Benedikt var einn þeirra sem kvað upp dóminn. 

Magnús er sem fyrr segir best þekktur sem forstjóri Atorku Group sem var umsvifamikið á árunum fyrir hrun en það sérhæfði sig í alþjóðlegum fjárfestingum í öðrum fyrirtækjum. 



 

Karl Axelsson hæstaréttardómari.Vísir/Valli
Baðst afsökunar

„Ég bið hér með Benedikt Bogason og Karl Axelsson afsökunar á hinum tilhæfulausu ásökunum. Ég vil jafnframt biðja þá sem deildu færslunni með hinum tilhæfulausu ásökunum að deila jafnframt þessari afsökunarbeiðni.“

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku en Benedikt og Karl ákváðu að láta málið niður falla þar sem Magnús féllst á að draga ummælin til baka.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Benedikts og Karls í málinu, segir Magnús hafa viðurkennt að orðin sem hann lét falla væru röng og tilhæfulaus með öllu.

„Umbjóðendur mínir eru ánægðir með þau málalok og þess vegna verður málið fellt niður í vikunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×