Erlent

Hamon og Valls mætast í síðari umferðinni

Atli ísleifsson skrifar
Benoît Hamon hefur áður gegnt embætti menntamálaráðherra.
Benoît Hamon hefur áður gegnt embætti menntamálaráðherra. Vísir/AFP
Franski vinstrimaðurinn Benoît Hamon, sem athygli hefur vakið fyrir töllögur sínar um að koma á borgaralaunum, hlaut flest atkvæði í fyrri umferð kosninga þar sem verið er að velja forsetaefni vinstrimanna.

Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra, hlaut næstflest atkvæði, en um næstu helgi verður kosið milli þeirra Hamon og Valls.

Niðurstaða fyrri umferðarinnar kom nokkuð á óvart, en Hamon, sem áður hefur gegnt embætti menntamálaráðherra, hlaut 36 prósent atkvæða, en Valls 31 prósent.

Skoðanakannanir höfðu sýnt Valls með nokkurt forskot á aðra með í kringum 35 prósent fylgi, en Hamon og Arnaud Montebourg virtust berjast um annað sætið, báðir með um fjórðung fylgis.

Montebourg var þriðji í kosningum helgarinnar með átján prósent fylgi.

Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram 23. apríl. Hljóti enginn hreinan meirihluta verður kosið milla tveggja efstu í síðari umferðinni sem fram fer 7. maí. Kannanir benda til að Frakkar munu kjósa milli Francois Fillon, forsetaefni Repúblikana, og Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, í síðari umferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×