Innlent

Mótmæla að fá ekki fulltrúa í samráðshópi um búvörusamninga

atli ísleifsson skrifar
Stjórn SAM telur að með skipan hópsins sé ekki farið að lagaákvæðum um skipan samráðshópsins.
Stjórn SAM telur að með skipan hópsins sé ekki farið að lagaákvæðum um skipan samráðshópsins. Vísir/gva
Stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) hefur mótmælt því harðlega að enginn fulltrúi afurðastöðva hafi verið tilnefndur í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.  

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur breytt skipan samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Svanfríður Jónasdóttir tekur við formennsku og skipan þriggja fulltrúa af fimm sem fyrri ráðherra skipaði hefur verið afturkölluð.

Í yfirlýsingu frá SAM segir að stjórnin telji að með skipan hópsins sé ekki farið að lagaákvæðum um skipan samráðshópsins. 

„Í 60. grein laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum, tollalögum og lögum um velferð dýra, sem samþykkt voru á Alþingi 13. september 2016, segir orðrétt, með undirstrikun SAM:

Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.  Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni.

Samkvæmt tilkynningu um skipan samráðshópsins eiga aðilar sem taldir eru upp í tilvitnaðri lagagrein fulltrúa í samráðshópnum og sumir marga fulltrúa – allir aðrir en afurðastöðvar.

Í frétt ráðuneytisins um breytta skipan samráðshópsins segir m.a.: „..að mikilvægt sé að víðtæk samvinna og sátt náist um breytingar á búvörusamningi og búvörulögum.“  Í ljósi þess að afurðastöðvar eiga ekki sæti í samstarfshópnum harmar stjórn SAM hve takmörkuð samvinnan virðist eiga að vera og telur að takmörkunin minnki líkur á að sátt náist um hugsanlegar breytingar á búvörusamningi og búvörulögum,“ segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×