Innlent

Afturkallar skipan þriggja fulltrúa og skipar nýjan formann samráðshóps

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin er samsett.
Myndin er samsett. Vísir/Valli/Stefán/Eyþór.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur breytt skipan samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Svanfríður Jónasdóttir tekur við formennsku og skipan þriggja fulltrúa af fimm sem fyrri ráðherra skipaði hefur verið afturkölluð.

Samráðshópurinn var upphaflega skipaður af Gunnari Braga Sveinssyni, forvera Þorgerðar Katrínar, en nýjum búvörulögum er kveðið á um að skipaður sé samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga.

Skipan Gunnars Braga var gagnrýnd og taldi Félag atvinnurekenda að loforð um þjóðarsamtal hefði verið svikið með því að félagið fengi ekki fulltrúa í samráðshópnum.

Úr því hefur nú verið bætt og tekur Páll Rúnar Mikael Kristjánson nú sæti í samráðshópnum fyrir hönd Félags atvinnurekenda.

Þá er fulltrúum fjölgað úr tólf í þrettán en skipan Guðrúnar Rósu Þórsteinsdóttur, sem átti að vera formaður hópsins, Bjargar Bjarnadóttur og Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi alþingismanns, hefur verið afturkölluð.

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að með breytingum á skipan samráðshópsins sé sérstaklega horft til þess að auka umhverfis- og neytendasjónarmiða við endurskoðun búvörusamningana.

Þar segir einnig að það sé mat ráðherra að mikilvægt sé að víðtæk samvinna og sátt náist við breytingar á búvörusamningi og búvörulögum. Breið aðkoma hagsmunaaðila við endurskoðun búvörusamnings sé nauðsynleg. Er miðað við að endurskoðun ljúki eigi síðar en árið 2019.

Nýjan samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga skipa:

• Svanfríður Jónasdóttir, formaður (skipuð af ráðherra)

• Brynhildur Pétursdóttir (skipuð af ráðherra)

• Elín Margrét Stefánsdóttir (skipuð af ráðherra)

• Jóna Björg Hlöðversdóttir (skipuð af ráðherra)

• Þórunn Pétursdóttir (Umhverfisráðherra)

• Páll Rúnar Mikael Kristjánsson (Félag atvinnurekenda)

• Róbert Faresveit (Alþýðusamband Íslands)

• Ólafur Arnarsson (Neytendasamtökin)

• Andrés Magnússon (Samtök atvinnulífsins)

• Sindri Sigurgeirsson (Bændasamtök Íslands)

• Björgvin Jón Bjarnason (Bændasamtök Íslands)

• Elín Heiða Valsdóttir (Bændasamtök Íslands)

• Helga Jónsdóttir (Bandalag starfsmanna ríkis og bæja)


Tengdar fréttir

Þjóðarsamtal um landbúnaðinn orðin tóm

ASÍ telur samþykkt búvörulögin á Alþingi mikil vonbrigði enda festi það í sessi til tíu ára kerfi sem skili hvorki ávinningi til neytenda né bænda. Loforð um þjóðarsamtal um landbúnað séu í skötulíki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×