Innlent

Greiðslur til þingmanna lækkaðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alþingi.
Alþingi. vísir/ernir
Forsætisnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í dag að lækka greiðslur vegna ferðakostnaðar og starfskostnaðar alþingismanna. Ferðakostnaður lækkar um 54 þúsund krónur og starfskostnaður um 50 þúsund krónur.

Formenn flokkanna sem eiga sæti á Alþingi fóru þess á leit við forsætisnefnd í desember að reglur um þingfarakostnað, starfstengdar og fastar mánaðarlegar greiðslur til þingmanna væru teknar til endurskoðunar.

Beiðnin var sett fram í tengslum við afgreiðslu Alþingis á frumvarpi um breytingar á kjararáði og í ljósi gagnrýni sem fram kom á kjör þingmanna á opinberum vettvangi eftir úrskurð kjararáðs í lok októbers sem fól í sér um 45 prósenta hækkun á þingfararkaupi.

Í bréfi sem Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, sendi á fjölmiðla, segir að hún hafi lagt til á fundi forsætisnefndar í dag að lækka greiðslur fyrir ferðakostnaði í kjördæmi og starfskostnaði.

Ferðakostnaður lækkar um 54 þúsúnd krónur og starfskostnaður lækkar um 50 þúsund krónur. Í bréfinu segir að hafa beri í huga að kostnaðargreiðslur séu ekki hugsaðar sem laun, þær eru skattfrjálsar að hluta, og verði því að uppreikna þær ef jafna á til launa.

Í bréfinu segir að jafna megi lækkun ferðakostnaður við 100 þúsund krónur í launagreiðslu og því megi jafna samanlagðri lækkun við 150 þúsund krónur fyrir skatt, sem sé í samræmi við beiðni formanna flokkanna.

Á fundi forsætisnefndarinnar var enn fremur samþykkt að taka núverandi lög um þingfararkaup og þingfararkostnað til endurskoðunar þar sem leiðarljósið verður einföldun og gagnsæi.


Tengdar fréttir

Deilt í forsætisnefnd um kjör þingmanna

Forsætisnefnd fundaði um launakjör þingamanna á miðvikudag. Deilt var um hugmyndir um að lækka álögur á laun formanna og varaformanna fastanefnda. Nefndarmönnum þóttu tillögurnar vega að landsbyggðarþingmönnum.

Telur eðlilegt að endurskoða sérgreiðslur til þingmanna

Steingrímur J. Sigfússon starfandi forseti Alþingis telur eðlilegt að endurskoða reglur um aukagreiðslur til þingmanna til að mæta gagnrýni vegna mikillar launahækkunar á síðasta ári. Forsætisnefnd Alþingis fundaði um málið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×