Innlent

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir hættulega líkamsárás á veitingastað í Reykjavík

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann í fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann í fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. vísir/valli
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á veitingastað árið 2015. Honum var gert að greiða fórnarlambinu 500 þúsund krónur og málskostnað.

Manninum var gefið að sök að hafa slegið annan mann hnefahöggum í andlitið með þeim afleiðingum að sá hlaut meðal annars opið brot í neðri kjálka sem festa þurfti saman með títanplötum og skrúfum.

Ákærði sagðist fyrir dómi kannast við að til átaka hafi komið á milli þeirra tveggja á veitingastaðnum, en að hinn maðurinn hafi átt upptökin af því. Sjálfur hafi hann aðeins verið að verja sig.

Samkvæmt eftirlitsmyndavél á staðnum var sá sem fyrir árásinni varð upphafsmaður slagsmálanna. Ákærði sést jafnframt taka glas af borði á staðnum og nota það sem barefli.

Framburður brotaþola um upphaf átakanna var því ekki í samræmi við upptökuna en það að hann hafi ekki greint frá því að hafa slegið ákærða að fyrra bragði þótti dómnum ekki draga úr trúverðugleika hans um það sem gerðist í kjölfarið.

Taldi dómurinn því hafið yfir skynsamlega vafa að ákærði hafi slegið hinn manninn í andlitið með glasi og því ákveðin fjögurra mánaða skilorðsbundin refsing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×