Lögreglumenn í Danmörku fylgdust með rannsókn á máli Birnu Brjánsdóttur í tengslum við hvarf hinnar dönsku Emilie Meng sem fannst látinn á aðfangadag síðastliðinn eftir að hafa verið leitað síðan í júlí.
Þetta kemur fram í umfjöllun danska blaðsins Ekstrabladet þar sem segir að lögreglumenn á Suður-Sjálandi og Lálandi-Falstri skoði svipuð mál í Danmörku og víðar til þess að reyna að varpa ljósi hvað hafi komið fyrir Emile.
Það var þó niðurstaða lögreglunnar eftir skoðun að engin tengsl væri á milli málanna. Lögregla hér á landi skoðaði einnig hvort að tengsl væri á milli hvarfs Birnu og Emile þar sem Polar Nanoq lagði úr höfn í Danmörku á leið til Íslands. Eftir skoðun lögreglu hér á landi kom í ljós að málin tengdust ekki.
Þegar lík Emilie fannst voru rúmir fimm mánuðir liðnir frá því að hún kvaddi tvær vinkonur sínar fyrir utan lestarstöðina í Korsør, vestast á Sjálandi, snemma að morgni 10. júlí. Vinkonurnar höfðu þá verið að skemmta sér í Slagelse, um tíu kílómetrum austar.
Leit dönsku lögreglunnar að morðingja hinnar sautján ára Emilie komst á nýtt stig eftir að lík hennar fannst í stöðuvatni á Sjálandi að morgni 24. desember. Málið vakti gríðarlega athygli í Danmörku á síðasta ári.
