Innlent

Guðni tekur á móti sýrlensku fjölskyldunum á Bessastöðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. Vísir/Ernir
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun á Bessastöðum taka á móti fimm sýrlenskum fjölskyldum sem koma hingað til lands sem kvótaflóttamenn síðdegis. Móttakan hefst klukkan 17 en áður hafði staðið til að hún yrði í Eiríkssal Keflavíkurflugvallar.

Auk forsetans munu Þorsteinn Víglundsson, félags-og jafnréttismálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjórinn í Reykjavík, og fulltrúar Rauða krossins á Íslandi taka á móti fjölskyldunum á Bessastöðum.

Fólkið kemur allt úr flóttamannbúðum í Líbanon en hópnum eru 22 einstaklingar, níu fullorðnir og þrettán börn. Fjórar fjölskyldur munu setjast að í Reykjavík og ein fjölskylda á Akureyri en þrjár fjölskyldur eiga ættingja hér á landi sem komu sem kvótaflóttamenn í fyrra. Þannig á fjölskyldan sem fer til Akureyrar skyldmenni þar.

Í liðinni viku komu tvær sýrlenskar fjölskyldur einnig til landsins sem kvótaflóttamenn en önnur þeirra settist að á Selfossi og hin í Hveragerði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×