Fótbolti

Tóku Elmar af velli og liðið fékk á sig jöfnunarmark rétt fyrir leikslok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Theódór Elmar Bjarnason og félagar hans í AGF voru aðeins örfáum mínútum frá því að vinna mikilvægan útisigur í baráttunni um að halda sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

AGF varð hinsvegar að sætta sig við 2-2 jafntefli á útivelli í fyrri leik liðanna í umspili um að halda sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni.  

Theódór Elmar var tekinn af velli tíu mínútum fyrir leikslok og það var heldur afdrifarík skipting því heimamenn náðu að jafna metin eftir að Íslendingurinn var sestur á bekkinn.

Jung-Bin Park kom Viborg í 1-0 strax á 10. mínútu en Morten Duncan Rasmussen  jafnaði fyrir AGF aðeins fimm mínútum síðar.

Kasper Junker kom AGF í 2-1 á 68. mínútu og það leit út fyrir að það mark ætlaði að verða sigurmarkið í leiknum þegar Serge Deble jafnaði metin fyrir Viborg á 89. mínútu leiksins.

Þetta eru alls ekki slæm úrslit fyrir AGF-liðið en liðið var aðeins nokkrum mínútum frá því að stíga stórt skref í átt að því að bjarga sér frá falli úr deildinni.

Það lið sem hefur betur í þessum tveimur leikjum er öruggt með sæti sitt í deildinni en tapliðið þarf að fara í umspilsleiki á móti liði b-deildinni.

Björn Daníel Sverrisson var ekki með í þessum leik þar sem að hann tók út leikbann fyrir of mörg gul spjöld. Björn Daníel ætti aftur á móti að geta hjálpað liðinu sínu í seinni leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×