Viðskipti innlent

Fiskkaupmenn í Grimsby segja upp starfsfólki vegna verkfalls íslenskra sjómanna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
"Fleiri kaupmenn en kassar!“
"Fleiri kaupmenn en kassar!“ Twitter
Fiskkaupmenn í Grimsby á Englandi hafa þurft að segja upp starfsfólki vegna langvarandi verkfalls íslenskra sjómanna. Aldrei hefur verið jafn lítið af fiski í bænum eins og síðastliðinn þriðjudag segja fjölmiðlar ytra. Einungis 514 fiskikassar voru þá boðnir upp sem lýst er sem „minnsta framboði sögunnar“ á virkum degi er fram kemur í Grimsby Telegraph.

Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í á þriðja mánuð og hafa fiskkaupmenn ytra nú neyðst til að bregðast við fiskskortinum með uppsögnum starfsfólks. Kaupmenn í Grimsby kaupa jafnan mikið af fiski frá Íslandi, sérstaklega þorsk og ýsu, og voru þeir farnir að hafa töluverðar áhyggjur af lífsviðurværi sínu þegar það hafði staðið í rúman mánuð.

„Fleiri kaupmenn en kassar!“ segir í tísti frá fiskmarkaðnum í Grimsby þar sem sjá má myndir af hálftómum markaðnum. 

Sjá einnig: Fiskkaupmenn í Grimsby óttast um lífsviðurværi sitt

Framkvæmdastjóri fiskmarkaðarins segir að þó verkfall sjómanna hafi meiri áhrif á Íslandi þá hafi það að sama skapi reynst þeim í Grimsby sársaukafullt. „Birgðir frá Íslandi eru engar. Það hefur neytt okkur til að aðlaga starfsmannafjöldann,“ segir framkvæmdastjórinn Martin Boyers við Grimsby Telegraph.

Hann ræddi við sendiherra Íslands í Bretlandi á þriðjudag sem Boyers segir að geri sér fulla grein fyrir alvöru málsins. Hann hafi lýst stöðunni sem flókinni og að engar skyndilausnir séu mögulegar í deilunni. „Við gerum því ráð fyrir að þetta verði strembið í nokkrar vikur til viðbótar,“ segir Boyers.

Vísir greindi frá því þegar þingkona Grimsby, Melanie Onn, skrifaði sjávarútvegsráðherra Breta um miðjan janúar þar sem hún gagnrýndi aðgerðarleysi breskra stjórnvalda í deilunni. Henni þóttu svör ráðherrans óviðunandi og hefur því ritað honum aftur og spurt hvort til standi að bresk stjórnvöld blandi sér í málið, fyrir hönd sjávarútvegarins í Grimsby.

Verkfall íslenskra sjómanna hefur að hennar sögn ekki einungis áhrif á kaupmenn heldur einnig aðra geira sem reiða sig á stöðugt framboð fisks; svo sem verslanir, veitingastaði og flutningsfyrirtæki.

„Er ríkisstjórnin tilbúin til að styðja fjárhagslega við þennan iðnað sem sér fram á alvarlegan hráefnaskort?“ spyr þingkonan. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×