Erlent

Sex starfsmenn Rauða krossins látnir eftir skotárás

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rauði krossinn hefur ákveðið að hætta starfsemi í Afganistan um tíma vegna árásarinnar.
Rauði krossinn hefur ákveðið að hætta starfsemi í Afganistan um tíma vegna árásarinnar.
Sex afganskir starfsmenn Rauða krossins í Afganistan eru látnir eftir skotárás í Jowzan-héraði. Talið er að árásarmennirnir séu meðlimir í hryðjuverkasamtökum ISIS. BBC greinir frá.

Tveir aðrir starfsmenn Rauða krossins er saknað eftir árásina og óttast er að þeir séu í haldi árásarmannanna. Í tilkynningu frá Alþjóðaráði Rauða krossins segir að starfsemi samtakanna verði sett á bið vegna árásanna.

Yfirvöld í Afganistan segja að starfsmenn Rauða krossins hafi verið að koma birgðum og hjálpargögnum til svæða sem urðu fyrir barðinu á snjóflóðum sem urðu minnst 100 manns að bana.

ISIS hefur verið með starfsemi í Afganistan frá árinu 2015 og tókst í fyrstu að ná yfirráðum yfir landsvæði á landamærum Afganistan og Pakistan.

Afganski herinn og talibanar hafa á undanförnum misserum þrengt verulega að ISIS. Hefur það gert það að verkum að samtökin hafa í auknum mæli einbeitt sér að hryðjuverkaárásum, á borð við þá sem varð starfsmönnum Rauða krossins að bana í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×