Innlent

Börn sættu ofbeldi og illri meðferð á Kópavogshæli: „Þegar X dó var sagt að þetta hefði verið slys“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá kynningu skýrslunnar í gær en Hrefna Friðriksdóttir er formaður vistheimilanefndar um Kópavogshæli.
Frá kynningu skýrslunnar í gær en Hrefna Friðriksdóttir er formaður vistheimilanefndar um Kópavogshæli. vísir/anton brink
Börn vistuð á Efra-Seli og barnadeildum Kópavogshælis á árunum 1952-1993 máttu í einhverjum mæli sæta líkamlegu og andlegu ofbeldi auk harðræðis á meðan á vistun stóð. Vistheimilanefnd skilaði skýrslu um vist barna á hælinu í gær.

Vistheimilanefnd var komið á laggirnar árið 2007 og skilaði hún þremur áfangaskýrslum um mál ýmissa unglinga- og vistheimila sem starfrækt voru síðustu öld. Síðustu skýrslunni var skilað árið 2011. Ný vistheimildanefnd var skipuð árið 2012 til að gera úttekt á málum Kópavogshælis. Hrefna Friðriksdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, var skipuð formaður nefndarinnar.

„Í erindisbréfi ráðuneytisins var nefndinni falið að skoða aðeins mál barna á heimilinu,“ segir Hrefna. Á Kópavogshæli voru bæði börn og fullorðnir vistuð í sameiningu. Þetta er fyrsta heimilið sem nefndin kannar þar sem sá hátturinn var hafður á.

Sjá einnig:Í baráttu fyrir tilverurétti: Frá fávitum til fólks með þroskahömlun

Í skýrslunni er lagaramminn, sem í gildi var á þeim tíma sem heimilið var starfrækt, rakinn. Þar kemur fram að stjórnvöld hafi sett að mörgu leyti framsækin lög um málefni þess fólks sem vistað var á heimilinu. Hins vegar vanræktu þau hrapallega að leggja það fjármagn í starfsemi og uppbyggingu sem nauðsynlegt var til að fullnægja markmiðum laganna.

Hrefna segir að í lögum hafi verið sett ýmis skilyrði fyrir vistun fávita og vanvita, eins og það var orðað á þeim tíma, á hælinu. Framkvæmdin var allt önnur þegar á hólminn var komið.

„Það er niðurstaða okkar að eftirlitsaðilar hafi brugðist. Bæði ytra eftirlitið, ráðuneytið og ýmsir aðrir og líka þetta innra eftirlit. Það hvíldu skyldur á æðstu stjórnendum til að tryggja að starfsemin væri í ákveðnu horfi og við teljum að þeir hafi brugðist í því,“ segir Hrefna.

Á þeim árum sem skýrslan nær til voru 178 börn vistuð á hælinu í lengri eða skemmri tíma. Skemmstu innlagnirnar námu nokkrum dögum en þær lengstu hátt í fjórum áratugum. Af þeim 178 eru um hundrað enn á lífi. 

Kristjana Sigurðardóttir, þroskaþjálfi.
Starfsfólk reyndi að gera hið besta úr aðstæðunum

Fyrrverandi starfsmaður Kópavogshælis segir að starfsfólk þess hafi allt verið af vilja gert að gera hið besta úr þeirri vinnuaðstöðu sem þeim var boðið upp á. Vistheimilanefnd skilaði skýrslu um málefni hælisins í gær.

„Ég viðurkenni að þegar ég horfi til baka hefði ég ekki viljað taka þátt í þessari menningu en þetta var menning á þeim tíma,“ segir Kristjana Sigurðardóttir þroskaþjálfi. Kristjana hóf störf á hælinu kornung árið 1960 og starfaði þar með hléum í hálfa öld.

„Þarna gerðust ýmsir hlutir sem áttu alls ekki að gerast. Á hælinu var oft einn starfsmaður með 20-25 vistmenn í sinni umsjá. Það gefur augaleið að við slíkar aðstæður næst aðeins að sinna grunnþörfum með herkjum. Þess á milli var fólkið afskiptalaust úti í garði eða lokað frammi á gangi,“ segir Kristjana.

Kristjana segir að almennt hafi starfsmenn reynt að vinna eins vel úr aðstæðum og unnt var en inn á milli hafi reynst rotin epli. Þá hafi ekki aðeins vistmenn sætt fordómum af hálfu samfélagsins heldur hafi það einnig gilt um starfsfólk.

„Það var erfitt að manna stofnanir og launakjörin voru ekki góð. Það var ekki hægt að velja úr starfsfólki nema síður væri,“ segir Kristjana.

Eftir að hún vann á hælinu fékk hún áhuga á starfinu og fór því í nám í þroskaþjálfun í stað þess að læra kennarann. Litið hafi verið á hana af fjölskyldu og vinum líkt og hún væri glötuð.

„Starfið þótti ekki fínt. Aðbúnaðurinn nú er allt, allt annar með aukinni menntun og ýmsum hjálpartækjum sem ekki var til að dreifa á fyrstu árunum. Við þóttum mjög uppreisnargjarnar þegar við snerum til baka úr námi og kröfðumst betri aðbúnaðar,“ segir Kristjana.

„Þetta er mjög viðkvæm og erfið umræða en hún er þörf svo að við höldum ekki áfram að gera sömu vitleysurnar,“ segir hún að lokum.

Lýsingar úr skýrslunni

Í skýrslunni er að finna lýsingar aðstandenda og vistmanna á hræðilegu ofbeldi. Hér að neðan er að finna nokkur dæmi úr skýrslunni.

„[É]g gekk fram á vaktmann þar sem hann stóð yfir litlum og horuðum dreng, sjö eða átta ára gömlum, og hafði bundið hann við ofn í dagstofunni með báðar hendur fyrir aftan bak svo að drengurinn gat ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þarna stóð maðurinn yfir drengnum með hnefann á lofti, öskraði svo á hann að þegja, en barnið veinaði og grét og kastaði svo allt í einu upp á gólfið af einskærri skelfingu. Ég gekk á milli og stoppaði manninn, en þá gerði hann sér lítið fyrir og reiddi hnefann á móti mér í bræði sinni. Minnstu munaði að ég fengi högg, en hann áttaði sig þó á því hver var komin og lét hendur síga.“

„[É]g hef aldrei borðað síld … ég ældi þessu, ég var látinn éta æluna upp þrisvar, fjórum, fimm, sinnum niðri í kjallara, svona var meðferðin á okkur þarna … þarna verður þú þar til diskurinn er orðinn tómur, var stundum að dunda við að éta upp æluna í þrjá til fjóra tíma.“

l „Meðferðin á krökkunum á Efra-Seli var verri en á Breiðavík … það mátti ganga um svona hálfvita bara eins og þú vildir, það mátti sparka í þá ef að þess þurfti, það mátti berja þá ef að þess þurfti“.

„[X] slasaðist nokkuð oft þarna inni, datt í baði, brenndist, skarst, klemmdi sig en það var yfirleitt aldrei nein skýring á því … stundum fékk engin okkar að vita það heldur … aldrei neinn sem bar ábyrgð á þessu, að hafa verið á staðnum, svoleiðis að við fengum aldrei neinar upplýsingar um hvað hafði skeð.“

Bróðir sagði frá því að X (vistun 12 ára á fullorðinsdeild) hefði verið sleginn, þegar X dó var sagt að þetta hefði verið slys en bróður fannst að fjölskyldan hefði aldrei fengið skýringar á því sem gerðist.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.



Tengdar fréttir

Vistmenn á Kópavogshæli máttu þola ofbeldi og vanlíðan

Börn sem vistuð voru á fullorðinsdeildum Kópavogshælis á árunum 1952-1993 þurftu í verulegum mæli að þola líkamlegt og andlegt ofbeldi og vanrækslu af ýmsu tagi, að því marki að lífi þeirra og heilsu hafi verið stofnað í alvarlega hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×