Erlent

65 ár frá því að Elísabet tók við bresku krúnunni

atli ísleifsson skrifar
Ljósmyndarinn David Bailey tók myndina af Elísabetu árið 2014.
Ljósmyndarinn David Bailey tók myndina af Elísabetu árið 2014. David Bailey
Bretar halda í dag upp á að 65 ár séu liðin frá því að Elísabet II tók við bresku krúnunni. Um er að ræða svokallað safírsafmæli.

Í tilefni af afmælinu hefur breska konungshöllin birt ljósmynd af Elísabetu sem ljósmyndarinn David Bailey tók árið 2014 þar sem hún klæðist safírsskarti sem faðir hennar, George VI, gaf henni í brúðkaupsgjöf árið 1947.

Hin níræða Elísabet er fyrsti breski þjóðhöfðinginn sem fagnar svokölluðu safírsafmæli á valdastóli.

Samkvæmt hefð fagnar Elísabet afmælinu á jörðinni Sandringham, en snýr svo aftur til Buckingham-hallar nokkrum dögum síðar.

Elísabet tók við krúnunni á þessum degi árið 1952 þegar faðir hennar lést og hefur hún því setið á valdastóli í 23.742 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×