Erlent

Forsætisráðherra Ísrael heimsækir Bretland í vikunni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Vísir/AFP
Forsætisráðherra Ísrael, Benjamín Netanyahu, hyggst ýta á Breta um að taka harðari afstöðu gegn stefnu íranskra stjórnvalda heldur en þau hafa hingað til gert, í heimsókn sinni til Bretlands í þessari viku. Guardian greinir frá.

Netanyahu hyggst þannig ræða við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um þá ógn sem hann telur stafa af írönskum stjórnvöldum, en talið er að hann muni nú nýta tækifærið sem felst í nýrri ríkisstjórn í Bandaríkjunum, til að reyna að knésetja kjarnorkusamning Bandaríkjanna við Íran, sem ríkisstjórn hans hefur frá upphafi gagnrýnt harðlega.

Netanyahu hyggst einnig heimsækja Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, sem og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og er talið að hann muni einnig ýta á harðari afstöðu þeirra í garð Írana, en Donald Trump hefur áður lýst sig andsnúinn kjarnorkusamningnum við Íran. 

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti Bretlands, mun May ræða við Netanyahu um áhyggjur breskra yfirvalda af uppbyggingu landnemabyggða á hernumdum landsvæðum Palestínumanna í Ísrael. Sú uppbygging var meðal annars gagnrýnd af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Talið er að ísraelsk yfirvöld vilji nánari samskipti við þau bresku, í ljósi nýrrar stöðu Bretlands utan Evrópusambandsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×