Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld ályktun þar sem kallað er eftir því að Ísraelar stöðvi uppbyggingu frekari landnemabyggða á Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalemborgar. BBC greinir frá.
Um 500 þúsund Ísraela búa í þessum landnemabyggðum sem byggðar voru eftir sigur Ísraela í 6 daga stríðinu árið 1967 þegar þeir hernámu svæðin jafnvel þrátt fyrir að það bryti í bága við alþjóðalög.
Egyptar lögðu upphaflega fram ályktunina og kemur nokkuð á óvart að hún hafi náð í gegn en fyrirfram var búist við því að Bandaríkjamenn myndu nýta sér neitunarvald sitt til að koma í veg fyrir það. Það hafa þeir allajafna gert þegar sett er fram ályktun í ráðinu þar sem Ísraelsmenn eru gagnrýndir, þar til nú. Öll ríki ráðsins kusu með tillögunni, en Bandaríkin sátu hjá.
Ísraelar eru æfir vegna þessa og hafa margir ráðamenn þar í landi sagt að Bandaríkjamenn hafi með þessu „ hreinlega yfirgefið sinn eina bandamann í Miðausturlöndum.“
Ríkisstjórn Obama styður "tveggja ríkja lausnina"
Ástæða þess að Bandaríkin sátu hjá er áhersla ríkisstjórnar Baracks Obama á „tveggja ríkja lausnina“ en hún kveður á um að Palestínumönnum verði gert kleyft að stofna eigið ríki í þeirri von að það geti lægt það ófriðarástand sem hefur verið fyrir botni Miðjarðarhafs síðastliðin ár.
Eru frekari landnemabyggðir Ísraela á þessum svæðum talin vinna gegn því að hægt verði að stofna palestínskt ríki.
Sendiherra Ísraela hjá Sameinuðu þjóðunum sagðist eftir atkvæðagreiðsluna binda vonir við að nýr aðalritari SÞ og ný ríkisstjórn Bandaríkjanna geti bætt samband Sameinuðu þjóðanna við Ísrael.
Keflavík
Grindavík