Skoðun

Það sem vantar!

Gunnar Ólafsson skrifar
Ég vil óska nýrri ríkisstjórn til hamingju og alls hins besta í sínum verkum. Ég hef lesið yfir stefnuyfirlýsingu hennar. Ég tilgreini þau atriði sem ég saknaði að lesa um í stefnuyfirlýsingunni.

Í fyrsta lagi er ekkert að finna um afturköllun á launahækkunum (45%) til þingmanna sem kjararáð ákvað eftir kosningar. Hækkunin er hrein móðgun við launafólk og lífeyrisþega. Þingmenn hækkuðu um á fjórða hundrað þúsund í launum á mánuði en grunnlífeyrir örorku- og ellilífeyris er 214-228 þúsund á mánuði. Þetta ber merki um að meirihlutinn á Alþingi er ekki í tengslum við kjör almennings.

Í öðru lagi vantar allt um húsnæðismál í stefnuyfirlýsinguna. Þar er ekkert að finna um átak fyrir ungt fólk um að eignast þak yfir höfuðið né um leigumarkaðinn, en leigjendum hefur fjölgað um 50% á síðustu tíu árum. Húsnæðismál var eitt stærsta málið í kosningabaráttunni í haust og nú segir ríkisstjórnin pass í þessu mikilvæga máli.

Í þriðja lagi fann ég ekkert í yfirlýsingunni um aðgerðir til að hækka frítekjumark ellilífeyris. Frítekjumörkin voru lækkuð úr ca. 110 þúsundum í 25 þúsund þegar Eygló Harðardóttur var félagsmálaráðherra. Þessi aðgerð er frámunalega vitlaus, því hún letur fólk á besta aldri að halda áfram að vinna, því allar aukatekjur að 25 þúsundum skerða lífeyri á móti. Þetta dregur úr virkni eldri borgara og lífshamingju þeirra og getur fest þá í ákveðinni fátækragildru. Að auki gengur þetta gegn almennri skynsemi, því á vinnumarkaði er þensla og þessi aðgerð hefur þau áhrif að framboð á vinnuafli minnkar og hætta er á að verðbólga fari á skrið.

Ég hef nefnt þrjú dæmi um hvaða sýn birtist í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Með því að aðhafast ekkert varðandi launahækkanir til alþingismanna er verið að hlaða meira undir þá sem hafa það betra í þjóðfélaginu. Um leið er aðgerðum sleppt til að styðja við hópa sem hafa það erfiðara í samfélaginu, eins og að draga úr óvissu á húsnæðismarkaði eða hækka frítekjumark á lífeyri til aldraðra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×