Viðskipti innlent

Miklar sviptingar á Akranesi í atvinnumálum: „Lífsviðurværi 43 starfsmanna í uppnámi“

Svavar Hávarðsson skrifar
HB Grandi hefur tilkynnt að hætt hafi verið við framkvæmdir við fiskþurrkun fyrirtækisins á Akranesi. Starfsemi fiskþurrkunarinnar var hætt í apríl í fyrra, og voru markaðsaðstæður ástæða þess. Illa hefur gengið að selja þurrkaðar afurðir vegna lítillar kaupgetu í Nígeríu sem virðist ekki vera að sækja í sig veðrið, eins og segir í tilkynningu.

Þegar þurrkun var hætt störfuðu 26 manns við hana. Þrettán þeirra var tryggð atvinna í öðrum starfsstöðvum HB Granda á Akranesi en hinir hafa unnið við tilraunavinnslu í húsi fiskþurrkunarinnar. Þeim hefur nú einnig verið boðin vinna í öðrum starfsstöðvum félagsins.

Rekstur fiskþurrkunarinnar hefur verið mjög umdeildur á Akranesi vegna lyktarmengunar frá vinnslunni. Var verkfræðistofa fengin til að skipa starfshóp til að meta aðgerðir vegna lyktarmengunarinnar eftir að bæjarstjórn samþykkti að hún yrði stækkuð. Hópur heimamanna hefur krafist þess að vinnslan verði færð fjær íbúabyggð.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifar af þessu tilefni pistil á heimasíðu félagsins og lýsir áhyggjum sínum af þróun síðustu daga, en á dögunum var tilkynnt að sautján starfsmönnum málmendurvinnslufyrirtækisins GMR á Grundartanga hafi verið sagt upp störfum. Þeir voru flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness og vinnur félagið að því að halda utan um réttindi starfsmanna í ljósi þessa, upplýsir Vilhjálmur.

„Á þessu sést að lífsviðurværi 43 starfsmanna þessara tveggja fyrirtækja er í uppnámi og vonandi ná sem flestir starfsmenn sem um ræðir að finna sér ný störf sem fyrst,“ bætir Vilhjálmur við. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×