Viðskipti innlent

Málmbræðslan GMR gjaldþrota: Sautján manns missa vinnuna

Haraldur Guðmundsson skrifar
GMR hóf framleiðslu á Grundartanga árið 2013.
GMR hóf framleiðslu á Grundartanga árið 2013. Vísir/GVA
Fyrirtækið GMR Endurvinnslan ehf. á Grundartanga var tekið til gjaldþrotaskipta í Héraðsdómi Vesturlands í gær. Um 17 starfsmönnum fyrirtækisins hafði þá verið sagt upp störfum en það endurvann stál sem fellur til hér á landi.

Daði Jóhannesson, framkvæmdastjóri GMR, vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður náði tali af honum og vísaði á skiptastjóra fyrirtækisins. Fréttablaðið ræddi við Daða síðastliðinn fimmtudag og kom þá fram að óvissa ríkti enn um reksturinn.

Sjá einnig: „Lífsviðurværi 43 starfsmanna í uppnámi“

Verksmiðja GMR var þá ekki lengur rafmagnslaus en RARIK hafði nokkrum vikum áður lokað á fyrirtækið vegna vangoldinna reikninga. Umhverfisstofnun hafði ítrekað gert athugasemdir við starfsemi málmendurvinnslunnar og skráð á yfir þriðja tug frávika frá starfsleyfi. Fyrirtækið sætti auknu eftirliti vegna ítrekaðra vanefnda við að koma mengunarvörnum í viðunandi horf.

Framkvæmdastjórinn sagði eigendur fyrirtækisins í leit að nýjum fjárfestum, bæði hér heima og erlendis, en vildi ekki svara því hversu mikil fjárþörfin væri. Daginn eftir að fréttin birtist var síðan öllu starfsfólki fyrirtækisins sagt upp störfum.

„Þetta fyrirtæki var stofnað fyrir fjórum árum og það er búinn að vera erfiður og langur uppbyggingarfasi. Erfiðari og lengri en menn ætluðu sér og það er margt sem spilar þar inn í. Heimsmarkaðsverð á stáli er þar langstærsti þátturinn,“ sagði Daði í samtali við Fréttablaðið. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×