Viðskipti innlent

Bjarni Ármanns keypti sig inn í skórisann S4S

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bjarni Ármansson fjárfestir á nú fjórðungshlut í S4S sem á Skechers í Kringlunni.
Bjarni Ármansson fjárfestir á nú fjórðungshlut í S4S sem á Skechers í Kringlunni. Vísir/Ernir
Fjárfestingarfélagið Sjávarsýn í eigu Bjarna Ármannssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstjóra Glitnis, keypti í október 26 prósenta hlut í heildversluninni S4S ehf. sem rekur skóverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Eignarhluturinn var áður í eigu Ingunnar Gyðu Wernersdóttur fjárfestis en S4S á Steinar Waage, Ecco, Kaupfélagið, Skór.is, Toppskóinn og íþróttavöruverslunina Air.is í Smáralind.

Bjarni settist í stjórn heildverslunarinnar í byrjun nóvember og tók þá sæti Bjarna Hafþórs Helgasonar, fyrrverandi fjárfestingarstjóra KEA og eiginmanns Ingunnar. Helga Sverrisdóttir, eiginkona Bjarna, fór á sama tíma inn í varastjórn félagsins í stað Ingunnar.

Pétur Þór Halldórsson, stærsti eigandi S4S, á 50 prósenta hlut í félaginu samkvæmt nýjasta ársreikningi þess. Aðrir hluthafar eru Hermann Helgason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, og Georg Kristjánsson en þeir eiga sín tólf prósentin hvor. S4S var rekið með 111 milljóna króna hagnaði árið 2015 en eignir þess námu þá 735 milljónum króna. Eigið fé félagsins var jákvætt um 342 milljónir og eiginfjárhlutfallið var 47 prósent.

Sjávarsýn á meðal annars útivistarvöruverslunina Ellingsen, fyrirtækið Ísmar í Síðumúla og 11,5 prósenta hlut í olíuþjónustufyrirtækinu Fáfni Offshore. Í byrjun desember í fyrra samþykktu Seðlabanki Íslands og samkeppnisyfirvöld á Spáni kaup Solo Seafood, í eigu Sjávarsýnar og þriggja íslenskra útgerðarfyrirtækja, á Icelandic Iberica, fyrrverandi dótturfélagi Icelandic Group á Spáni. Sjávarsýn átti í árslok 2015 eignir upp á 3,3 milljarða króna miðað við nýjasta ársreikning fjárfestingarfélagsins. Ekki náðist í Bjarna Ármannsson við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×