Innlent

Dómur mildaður vegna Grettisgötubrunans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi eldsvoðans.
Slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi eldsvoðans. vísir/anton brink
Hæstiréttur hefur mildað dóm yfir manni vegna eldsvoða í iðnaðarhúsnæði Grettisgötu í mars á síðasta ári. Fangelsvist mannsins hefur verið stytt auk þess sem að hann var sýknaður af kröfu Tryggingarmiðstöðvarinnar.

Héraðsdómur hafði áður sakfellt hann fyrir að láta hjá líðast að gera það sem í hans valdi stóð til þess að vara við eða afstýra eldsvoða og því eignatjóni sem af hlaust, jafnvel þótt hann hefði getað aðhafst án þess að stofna sér í hættu.

Maðurinn var ákærður ásamt bróður hans fyrir brunann. Bróðir mannsins játaði að hafa kveikt í slæðu á stól í herbergi sínu, hent stólnum á dýnu og skilið brennandi dýnuna eftir inni í herberginu. Var hann metinn ósakhæfur í héraðsdómi en maðurinn dæmdur í sex mánaða fangelsisvist og gert að greiða Tryggingamiðstöðinni tólf milljónir.

Allt tiltækt lið slökkviliðs var kallað út.Vísir/Egill
Sjá einnig: Merkileg menningarsaga Grettisgötu 87

Maðurinn var í herberginu þegar eldurinn kom upp en hvorki hann né bróðir hans hringdu á lögreglu eða slökkvilið. Bræðurnir tveir hafa báðir glímt við andleg veikindi og dvalið á götunni.

Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Tryggingamiðstöðinni hefði ekki tekist að sanna að maðurinn hefði þannig tengsl við atburðarrásina sem átti sér tað að hann gæti borið skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af eldsvoðanum hlaust.

Var fangelsisdómur mannsins styttur í fjóra mánuði og skaðabótakrafa Tryggingamiðstöðvarinnar felld niður.

Allt tiltækt lið slökkviliðs var kallað til er mikill eldur kom upp á verkstæði á Grettisgötu 87 og gjöreyðilagðist það í eldinum. Í húsinu voru tvö bifreiðaverkstæði, líkamsræktarstöð, vinnustofa og íbúð listmálara, auk bifreiðageymslu í kjallara. Meðal þess sem glataðist var mikið safn málverka eftir Halldór Ragnarsson myndlistarmann. Var húsið metið á 200 milljónir króna.

Sjá má dóm Hæstaréttar hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×