Innlent

Tók sjálfu í kvennaklefanum í World Class og neitaði að eyða henni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kalla þurfti til lögreglu þar sem konan neitaði að eyða myndinni. Myndin er sviðsett.
Kalla þurfti til lögreglu þar sem konan neitaði að eyða myndinni. Myndin er sviðsett. Vísir/Getty
Upp úr sauð á milli tveggja kvenna í búningsklefa World Class á Seltjarnarnesi í hádeginu í dag. Ástæðan var sú að önnur konan tók sjálfu af sér í spegli búningsklefans en hin vildi að konan eyddi myndinni.

Isabella Ósk Másdóttir var í sturtu þegar myndatakan sjálf fór fram en varð vitni að samskiptum kvennanna í klefanum í kjölfarið. Hún segir konuna hafa fengið að sjá myndina og hún hafi verið inni á henni, fáklædd. Því hafi hún beðið konuna sem tók myndina að eyða henni en konan neitaði að verða við þeirri beiðni.

„Konan var rosalega sár,“ segir Isabella en konurnar hafi farið í afgreiðsluna og rætt við starfsfólk. Reynt hafi verið að afgreiða málið en konan staðið fast á því að hún ætlaði ekki að eyða myndinni.

Það hafi séð sig knúið til að kalla á lögreglu sem mætti skömmu síðar. Var verið að taka skýrslu af konunni sem tók myndina þegar Isabella yfirgaf svæðið. 

Rétt er að taka fram að myndatökur í búningsklefum sundlauga og líkamsræktarstöðva eru með öllu óheimilar. 

Ekki náðist í lögreglu við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×