Erlent

Talsmaður Fillon sagður vera grunaður um skattaundanskot

atli ísleifsson skrifar
Thierry Solère er talsmaður framboðs Repúblikanans Francois Fillon.
Thierry Solère er talsmaður framboðs Repúblikanans Francois Fillon. Vísir/AFP
Það blæs ekki byrlega hjá Francois Fillon, forsetaefni franskra Repúblikana, en í dag greina franskir fjölmiðlar frá því að talsmaður hans, Thierry Solère, sé nú til rannsóknar hjá yfirvöldum vegna gruns um skattaundanskot.

Síðustu vikur hafa reynst Fillon afskaplega erfiðar eftir að upp komst að hann hafi haft eiginkonu og börn á launaskrá hjá hinu opinbera sem aðstoðarmenn sína, án þess þó að þau hafi skilað eðlilegu vinnuframlagi.

Það er blaðið Le Canard enchaîné sem greinir frá þessu, en það sagði einnig fyrst frá greiðslunum til eiginkonu og barna Fillon.

Að sögn blaðsins á Solère að hafa verið til rannsóknar hjá yfirvöldum frá í september, en meint undanskot eiga að hafa átt sér stað á tímabilinu 2010 til 2013.

Fillon hefur hafnað ásökunum blaðsins og segir þær lygar. Solère kveðst saklaus af ásökununum og hefur sagt í samtali við BFM TV að hann íhugi að stefna blaðinu fyrir meiðyrði.

Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fara fram þann 23. apríl en sú síðari 7. maí. Fillon var lengi vel talinn eiga mjög góða möguleika á að bera sigur úr býtum, en heldur hefur hallað undan fæti hjá framboði hans á síðustu vikum.

Skoðanakannanir benda til að líklegast þyki að kostið verði milli miðjumannsins Emmanuel Macron og Marine Le Pen. forsetaefni Þjóðfylkingarinnar, í síðari umferð kosninganna.


Tengdar fréttir

Styttist í kosningar

Marine le Pen hefur tvisvar áður boðið sig fram til forseta Frakklands en aldrei verið sigurstranglegri en einmitt nú. Skoðanakannanir spá henni fjórðungi atkvæða og þar með fyrsta sæti í fyrri umferð forsetakosninganna, sem verður haldin 23. apríl, en það tryggir henni þátttöku í seinni umferðinni hálfum mánuði síðar, þann 7. maí, þar sem kosið verður á milli tveggja efstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×