Innlent

Ofbeldisbrotum fjölgar í höfuðborginni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
111 tilkynningar um ofbeldisbrot, þar af 16 stórfelld.
111 tilkynningar um ofbeldisbrot, þar af 16 stórfelld. vísir/gva
Ofbeldisbrotum í höfuðborginni í janúarmánuði hefur fjölgað á milli ára, samkvæmt nýútkominni afbrotatölfræði lögreglu. Alls fékk lögregla 111 tilkynningar um slík brot í liðnum mánuði sem eru 23 prósent fleiri tilkynningar miðað við meðaltal í janúar árin 2014 til 2016.

Þá fjölgar skráðum ofbeldisbrotum miðað við útreiknuð efri mörk síðustu sex og síðustu tólf mánuði á undan. Alls voru 93 minniháttar líkamsárásir og 16 meiriháttar eða stórfellar. Tvö tilvik eru skráð sem önnur ofbeldisbrot.

Jafnframt voru skráð sex tilvik þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi, sem eru 38 prósent fleiri tilvik miðað við meðaltal í janúar síðustu þriggja ára á undan. Einum lögreglumanni var hótað ofbeldi, sem er 40 prósent minna en síðustu þrjú ár á undan.

Alls bárust 47 tilkynningar um heimilisofbeldi í janúar og fækkar þeim samanborið við neðri mörk síðustu sex og síðustu tólf mánuði á undan. Tilkynningarnar eru hins vegar 9 prósentum fleiri en bárust að meðaltali í janúar síðustu þrjú ár á undan. Lögregla tekur fram að nýtt verklag hafi formlega tekið gildi 12. janúar 2015 og að af þeim sökum sé ekki marktækt að bera saman fjölda fyrir og eftir breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×