Viðskipti innlent

Bandarískir fjárfestingasjóðir með tvö prósent í Icelandair

Hörður Ægisson skrifar
Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um 28% eftir birtingu afkomuviðvörunar félagsins fyrir tveimur vikum.
Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um 28% eftir birtingu afkomuviðvörunar félagsins fyrir tveimur vikum. Mynd/Vilhelm
Fjórir bandarískir fjárfestingasjóðir á vegum eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance eiga í dag samanlagt rúmlega tvö prósent eignarhlut í Icelandair Group. Enginn einn fjárfestingasjóðanna kemst hins vegar á opinberan lista yfir tuttugu stærstu hluthafa flugfélagsins en markaðsvirði þeirra bréfa sem eru í eigu sjóðanna, miðað við gengi bréfa Icelandair við lokun markaða í gær, er samtals um 1.600 milljónir.

Fjárfestingasjóðirnir byrjuðu að fjárfesta í Icelandair 2015 en í lok þess árs áttu þrír sjóðanna – Global Macro Portfolio, Global Macro Absolute Return Advantage og JNL/ Eaton Vance Global Macro – samanlagt 0,7 prósenta hlut í félaginu. Rúmlega ári síðar hafa sjóðirnir, ásamt Global Macro Capital Opportunities Portfolio, næstum þrefaldað eignarhlut sinn í Icelandair en á sama tímabili hefur hlutabréfaverð félagsins lækkað um 55 prósent. Eignarhlutur Global Macro Portfolio er í dag 0,99 prósent en sjóðurinn Global Macro Absolute Return Advantage á 0,84 prósent í Icelandair. Sjóðirnir eru því báðir á meðal þrjátíu stærstu hluthafa flugfélagsins en samanlagður eignarhlutur þeirra skilar þeim hins vegar í hóp fimmtán stærstu eigenda Icelandair.

Samkvæmt lista yfir alla hluthafa Icelandair síðastliðinn mánudag, sem Markaðurinn hefur séð, þá eru sjóðir tengdir Eaton Vance um þessar mundir einu erlendu fjárfestingasjóðirnir í hluthafahópi flugfélagsins. Greint var frá því í Markaðnum í síðustu viku að bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital hefði selt öll bréf sín í Icelandair í janúar. Sjóðurinn hafði áður átt, í gegnum félagið TCA Event Investments Opportunity sem er skráð með lögheimili í Lúxemborg, samanlagt um 11 milljónir hluta í félaginu. Miðað við gengi bréfa á Icelandair á þeim tíma má áætla að sjóðurinn hafi selt þann hlut fyrir um 230 milljónir.

Fjárfestingasjóðir í stýringu Eaton Vance, eða dótturfélaga þess, hafa verið nokkuð umsvifamiklir í fjárfestingum á íslenskum hlutaog skuldabréfamarkaði á undanförnum misserum. Þannig hafa sjóðirnir keypt í flestum skráðum fyrirtækjum í Kauphöll Íslands og í lok síðustu viku voru þeir á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa í sex félögum – HB Granda, Högum, Reitum, Eimskipum, Símanum og Regin.

Þrátt fyrir að kaup sjóðanna í Icelandair Group hafi fram til þessa ekki skilað þeim neinum hagnaði þá vegur á móti að gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal hefur styrkst um liðlega 17 prósent frá ársbyrjun 2016. Samtímis því að ekkert lát er á fjárfestingum sjóðanna á íslenskum hlutabréfamarkaði þá er Eaton Vance á meðal þeirra bandarísku fjárfestingasjóða sem segjast vera að kanna þann möguleika að höfða mál á hendur íslenska ríkinu vegna frumvarps um meðferð aflandskrónueigna.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×