Innlent

Hlýindin senn á enda

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Óvenju milt hefur verið í veðri.
Óvenju milt hefur verið í veðri. vísir/valli
Lægðirnar fara að komast austur fyrir land á næstu dögum og þá styttist í norðaustanáttir og kólnandi veður, þótt lítið beri á því allra næstu daga. Afar hlýtt hefur verið í veðri en það skýrist yfir víðáttumikilli hæð sem hefur verið yfir Skandinavíu að undanförnu.

„Nú er farið að sjá í endalok hinnar víðáttumiklu og þausetnu hæðar sem búin er að vera yfir Skandinavíu að undanförnu. Hún hefur verið aðalorsakavaldur þess hve hlýtt hefur verið, enda stýrt lægðunum sem síðan gaf okkur þennan langa hlýindakafla. Nú er að sjá að á næstu dögum fari lægðirnar að komast austur fyrir land og þá styttist í norðaustanáttir og kólnandi veður, þótt lítið beri á því allra næstu daga,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Búast má við breytilegri átt 3 til 8 metrum á sekúndu í dag. Rigning og súld en úrkomulítið um landið norðvestanvert. Norðaustan 3-10 metrar á sekúndu þegar líður á daginn, slydda norðanlands, rigning eða súld sunnan- og austanlands, en að mestu þurrt og léttir heldur til vestast á landinu. Hiti 2 til 7 stig.

Hæg breytileg átt á morgun, smá úrkoma hér og þar og hiti 1 til 5 stig sunnantil, en hiti um og undir frostmarki fyrir norðan. Hæg vaxandi suðaustanátt sunnantil annað kvöld.

Þá eru vegir á Suður- og Vesturlandi greiðfærir en á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á fjallvegum á á kafla í Ísafjarðardjúpi.

Á Norðurlandi er að mestu greiðfært en hálkublettir eru í Bárðardal og á Mývatnsöræfum. Á Austurlandi eru hálkublettir á Vopnafjarðarheiði og hálka á Mjóafjarðarheiði en annars eru vegir auðir og það sama má segja með suðausturströndina, þar eru allir vegir auðir, segir á vef Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×